Skoðun

UN Global Compact á Íslandi

Auður Hrefna Guðmundsdóttir skrifar

Sjálfbær þróun er orðin grundvallarþáttur í hagþróun um allan heim. Margvísleg samtök stuðla að sjálfbæru atvinnulífi en stærsta sjálfbærniframtak heims er UN Global Compact (UNGC), eða sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um ábyrgt atvinnulíf.

Í UN Global Compact eru yfir 22 þúsund aðildarfyrirtæki í yfir 160 löndum. Dæmi um aðila eru alþjóðleg fyrirtæki á borð við Maersk, Equinor (áður Statoil), Volvo, Johnson & Johnson, Pepsi-Co, Samsung Electronics, Unilever, General Electric (GE) og IBM.

Starfsemi UN Global Compact miðast við að fyrirtæki fylgi eftir hinum tíu meginreglum sáttmálans (e. the Ten Principles of the UN Global Compact). Þessar tíu meginreglur varða ábyrga viðskiptahætti og falla undir mannréttindi, vinnumarkaðsmál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Einnig vinna samtökin markvisst að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.  

Sjálfbærni, jafnvægi, hringrásarhagkerfið, réttlát umskipti: þetta eru allt hugtök sem við þekkjum. Öll snúast þau um að leggja grunn að sjálfbærri velmegun og verðmætasköpun til lengri tíma. Þetta er einmitt leiðarljós Sameinuðu þjóðanna og þess vegna var sáttmálinn Global Compact gerður fyrir rétt rúmum 20 árum.  

UNGC hvetur og aðstoðar fyrirtæki við að fylgja sjálfbærum og samfélagslega ábyrgum starfsháttum. Þátttaka í UN Global Compact staðfestir ekki aðeins skuldbindingu fyrirtækja í átt að sjálfbærari rekstri, heldur styrkir þátttaka í UNGC alþjóðlegt orðspor íslensks atvinnulífs.

Með því að ganga í UNGC tengjast íslensk fyrirtæki alþjóðlegu neti fyrirtækja, stofnana og samtaka. Aðild felur m.a. í sér aðgang að akademíu UN Global Compact, framboð ýmissa hraðla um einstök málefni sjálfbærni, viðburði hér á landi og á Norðurlöndum og ýmsa aðstoð tengda málefnum sjálfbærni. Allt er þetta gert til að miðla þekkingu, hvetja til samvinnu, auka nýsköpun og samkeppnishæfni.

Til að fylgjast með árangri fyrirtækja á sviði sjálfbærni skila aðildarfyrirtæki upplýsingum með þar til gerðum rafrænum gagnagrunni, sem tekinn var í notkun fyrr á árinu 2023. Þetta gerir hagaðilum og fyrirtækjunum sjálfum auðvelt að fylgjast með aðgerðum og árangri.

Starfsemi Global Compact varðar málefni sjálfbærni þvert á landamæri. Um leið erum við minnt á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu. Íslensk fyrirtæki og íslenskt hagkerfi þarf á henni að halda. Aðgerðir á sviði loftslagsmála, umhverfisverndar og á sviði mannréttinda verða að flæða milli landa í anda góðrar samvinnu. Fá samtök eru í betri aðstöðu til að byggja árangur á samvinnu en Global Compact og stuðla að sjálfbærum hagnaði fyrirtækja. 

Náttúruauðlindir Íslands, svo sem jarðhiti, vatnorka og ósnortið landslag, gegna lykilhutverki í verðmætasköpun íslenska hagkerfisins. UNGC leggur áherslu á ábyrga auðlindastjórnun og hvetur fyrirtæki til að taka upp sjálfbæra starfshætti sem lágmarka umhverfisáhrif um leið og stuðlað er að hagnaði til lengri tíma.

UNGC leggur enn fremur ríka áherslu á mannréttindi, vinnuumhverfi og félagslega aðlögun. Með því að innleiða meginreglur UNGC í starfsemi sína geta íslensk fyrirtæki stuðlað að réttlátara samfélagi. Með því að efla fjölbreytileika og þátttöku hlúa fyrirtæki að umhverfi jafnra tækifæra. Þetta eykur aftur á móti ánægju starfsmanna, eykur framleiðni og laðar að hæfileikaríkt fagfólk inn á vinnumarkaðinn. Samfélagslega ábyrg fyrirtæki styrkja íslenskt atvinnulíf í heild.

Ferðaþjónusta er orðin að grundvallarstoð í íslensku atvinnulífi, auk annarra mikilvægra atvinnuvega s.s. sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar, upplýsingatækni, verslunar og þjónustu. Með því að vera aðili að UNGC geta íslensk ferðaþjónustufyrirtæki orðið sjálfbærari og tryggt betur að ferðaþjónustan verði áfram jákvætt afl fyrir umhverfið, staðbundin svæði og samfélagið í heild. Sjálfbær ferðaþjónusta laðar að sér ábyrga ferðamenn sem setja áfangastaði sem sýna fram á skuldbindingu um sjálfbærni í forgang.

Samtökin UN Global Compact eru nú með formlega starfsemi á Íslandi og ráðgefandi stjórn hefur verið skipuð (e. Leadership Council). Skrifstofa samtakanna er í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík.

Miðvikudaginn 31. maí milli kl. 10-12 verður haldinn kynningarviðburður á vegum UN Global Compact á Íslandi. Fundurinn hefst kl. 10 og fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Allir eru velkomnir. Heimasíða UN Global Compact á Íslandi

Höfundur er svæðisstjóri UN Global Compact á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×