Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu. Þar segir að ríflega tvær af hverjum fimm brottförum voru tilkomnar vegna Breta og Bandaríkjamanna, en brottfarir Íslendinga voru um 39 þúsund í febrúar.
Fram kemur að flestar brottfarir í febrúar hafi verið tilkomnar vegna Breta eða 39 þúsund talsins (28,7 prósent af heild). Bandaríkjamenn voru í öðru sæti en brottfarir þeirra mældust tæplega 21 þúsund eða 15,1 prósent af heild.
„Bretar og Bandaríkjamenn hafa verið stærstu þjóðernin í febrúarmánuði síðustu tvo áratugi eða frá því mælingar Ferðamálastofu hófust, með örfáum undantekningum.
Brottfarir Þjóðverja voru í þriðja sæti í febrúar eða 6,8% af heild og Frakkar í því fjórða (6,7%). Þar á eftir fylgdu Pólverjar (4,0%), Írar (3,7%), Ítalir (3,4%), Kínverjar (2,9%), Danir (2,7%) og Spánverjar (2,2%).
Brottfarir erlendra farþega frá áramótum
Frá áramótum hafa um 258 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 143 þúsund talsins. Samtals voru brottfarir í janúar og febrúar í ár um 84% af þeim brottförum sem þær mældust sömu mánuði árið 2018 og 90% af því sem þær mældust árið 2019.
Brottfarir Íslendinga
Brottfarir Íslendinga voru um 39 þúsund talsins í febrúar, 11 þúsund fleiri en í fyrra (39,2% aukning). Frá áramótum (jan.-feb.) hafa um 80 þúsund Íslendingar farið utan sem er álíka fjöldi og á sama tímabili 2018 og 2019,“ segir í tilkynningunni.