Skoðun

Ósmekklegar ávirðingar gagnvart borgarskjalaverði í skýrslu KPMG

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Nú verður Borgarskjalasafn lagt niður á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 7. mars og til grundvallar er skýrsla KPMG. Sagt er að gjörningurinn sé til að spara. Það sjá allir í hendi sér hvílíkt kjaftæði það er.

Skýrslan er með eindæmum. Það er alveg á hreinu að þegar gagnrýni og ávirðingar á einhvern starfsmann eða einhverja stofnun í skýrslu sem þessari eru settar fram án þess að gefa viðkomandi aðila tækifæri til að tjá sig um málið áður þá er verið að brjóta stjórnsýslulög. Andmælarétturinn er skýr. Á þennan hátt er hægt að segja hvað sem er um hvern sem er. Flokki fólksins í borginni finnst það ófagmannlegt í skýrslu sem þessari að birta slíkar ávirðingar án þess að andmælaréttur viðkomandi sé virtur. Hver er kominn til með að segja að þessar ávirðingar séu á rökum reistar?

Gjörningurinn er sagður sparnaður

Ef tekið er nærtækt dæmi þá kostar rekstur Borgarskjalasafns nálægt 7,5% af þeim fjármunum sem hafa runnið til starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs undanfarin ár, (200 milljónir á móti þremur milljörðum).

Hvað fjármuni varðar þá er enginn vandi að fá út háar fjárhæðir ef nógu mörgum árum er hrært saman. Í raun kostar rekstur Borgarskjalasafns ekki mikið. Laun undir 100 milljónum króna á ári og annar kostnaður um 100 milljónir á ári.

Einhverjir sjö milljarðar eru fundnir út með því að leggja saman einhver sjö ár ásamt fjárfestingarkostnaði sem ekki er greindur frekar á neinn hátt í skýrslu KPMG. Ekkert af þessu var borið undir borgarskjalavörð.

Allt þetta ferli þarf að rannsaka. Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir að gerð verði úttekt og stjórnsýsluskoðun á starfsemi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og hvernig þeim gríðarlegu peningum, sem hafa runnið til sviðsins á undanförnum árum, hefur verið varið. Nú liggur fyrir að Innri endurskoðun hefur á áætlun sinni úttekt á stafrænni innleiðingu og er fyrirhugað að ljúka henni á þessu ári.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×