Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, segist ekki vera of stressaður með áhrifin sem verkfall olíubílstjóra kann að hafa á verslanir fyrirtækisins. Ástandið sé þó auðvitað ekki gott.
„Við erum búin að vera aðeins að birgja okkur upp og eigum nóg fram eftir helgi. Vonandi verður þetta leyst fyrir þann tíma og þurfum ekki að pæla í næstu skrefum,“ segir Baldur í samtali við fréttastofu.
Ekki er hægt að eiga nægar birgðir af öllu, eins og ferskvöru. Nóg er þó í búðunum eins og staðan er í dag svo það er lítið stress í gangi. Aðspurður hvort fólk sé byrjað að hamstra segir Baldur að hann eigi eftir að skoða það betur.
„Ég hef ekki heyrt mikið af því en hef heyrt að það sé aðeins meira en venjulega, stærri körfur,“ segir Baldur.