Peningastefnunefnd hækkaði meginvexti Seðlabankans um 0,5 prósentustig í morgun. Þrjár meginforsendur ráða ákvörðun nefndarinnar, verðbólguhorfur hafi versnað frá síðasta fundi hennar, aðhald fjárlaga væri minna en reiknað hefði verið með og launahækkanir verið meiri.
Á sama tíma er bullandi uppsveifla í íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur var 7,1 prósent í fyrra og hefur ekki verið meiri frá því árið 2007 og vinnumarkaðurinn annar ekki eftirspurn þannig að þúsundir manna hafa verið sóttir til annarra landa til að standa undir uppsveiflunni. Gengi krónunnar hefur gefið eftir þannig að útflutningsfyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki fá fleiri krónur en áður fyrir gjaldeyristekjurnar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri útilokar ekki að hækka þurfi vexti enn frekar á næsta vaxtaákvörðunardegi í mars.
![](https://www.visir.is/i/9936BC3FC0454C75E4B8B569CFC0FACEB3D861EBBA14EDAC6AE8AF2133EFC105_390x0.jpg)
Almenningur situr uppi með Svarta Pétur, er staðan þannig að almenningur eigi einn að standa undir því að ná niður verðbólgunni?
„Alls ekki. Við erum núna að vinna fyrir almenning, að ná niður verðbólgu. Nú hefur verið samið um launahækkanir og við erum að reyna að tryggja að þær hafi eitthvert virði,“ segir Ásgeir. Seðlabankinn standi að baki krónunni og hafi það hlutverk að tryggja að hún brenni ekki upp í verðbólgu og laun haldi kaupmætti.
Seðlabankastjóri segir gildi krónunnar meðal annars markast af mismuni inn- og útflutnings en síðustu mánuði hafi Íslendingar flutt meira inn en út og því halli á viðskiptajöfnuði. Hærri vextir ættu að slá á innlenda eftirspurn. Íslendingar ættu að vissu leyti við góðærisvanda að stríða á meðan hagvöxtur færi minnkandi í öðrum löndum.
Peningastefnunefnd segir að aðhald stjórnvalda mætti vera meira.
„Við hefðum viljað sjá meira, já. Það eru þrír aðilar sem í rauninni fara með stjórn í þessu kerfi, heildarstjórn. Það eru vinnumarkaðsfélögin, stjórnvöld og síðan Seðlabankinn. Það er engin launung á því að við hefðum viljað sjá hina tvo aðilana leggjast fastar á árarnar með okkur,“ segir Ásgeir.
Lífkjarasamningarnir hafi skilað mesta kaupmáttarauka í sögunni þótt illa hafi gengið síðasta hálfa árið. Nú hafði síðan verið gerðir skammtíma kjarasamningar og því gefist ár til að ná árangri í baráttunni við verðbólgu og undirbúa samninga til lengri tíma.
„Við hefðum viljað sjá minni launahækkanir núna. Það hefði hjálpað okkur. En við verðum að vinna með þessa samninga eins og þeir eru. Þess vegna erum við náttúrlega að hækka vexti núna. Til þess að við getum sýnt fram á árangur áður en það verður byrjað næst að semja,“ segir Ásgeir Jónsson.
Viðtalið við seðlabankastjóra í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: