Enski boltinn

Biel­sea vildi taka við U-21 ára liði E­ver­ton fyrst og aðal­liðinu næsta sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcelo Bielsa vildi í raun ekki taka við aðalliði Everton fyrr en í sumar.
Marcelo Bielsa vildi í raun ekki taka við aðalliði Everton fyrr en í sumar. EPA-EFE/Martin Rickett

Marcelo Bielsa er einstakur á margan hátt. Hann var orðaður við þjálfarastöðuna hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton en var á endanum ekki ráðinn. Ástæðan virðist vera sú að hann vildi láta starfslið sitt taka við aðalliði félagsins á meðan hann myndi stýra U-21 ára liði Everton.

Hinn 67 ára gamli Bielsa er þekktur fyrir leikstíl sinn en hann krefst gríðarlegs ákafa. Hann er þekktur fyrir gríðarlegt æfingaálag og þá hefur hann aldrei tekið við liði á miðju tímabili. Hann þarf undirbúningstímabil til að móta leikmenn sína og kenna þeim fræðin.

Bielsea stýrði Leeds United frá 2018 til 2022. Hann þekkir því ágætlega til ensku deildarinnar og var sá maður sem Farhad Moshiri, eigandi Everton, horfði hvað mest til. Bielsa hefur hins vegar engan áhuga á að taka við liði á miðju tímabili en var til í að gera málamiðlun.

Hann og starfslið hans myndu taka við Everton en á meðan samstarfsmenn hans myndu stýra aðalliðinu yrði hann þjálfari U-21 árs liðs félagsins.

Moshiri virðist ekki hafa tekið vel í þessa hugmynd og hefur nú ráðið Sean Dyche, fyrrverandi þjálfara Burnley. Segja má að leikstíll hans og Bielsa sé eins ólíkur og mögulegt er. Dyche náði þó frábærum árangri með Burnley. Hann stýrði liðinu í áratug, frá 2012 til 2022, og kom liðinu meðal annars í Evrópudeildina.

Everton er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Næsti leikur liðsins, og væntanlega sá fyrsti undir stjórn Dyches, er gegn toppliði Arsenal á Goodison Park laugardaginn 4. febrúar.


Tengdar fréttir

Bielsa lentur í London en sagður hafa hafnað Everton

Marcelo Bielsa er kominn til London þar sem hann ræddi við forráðamenn hjá Everton um að taka við knattspyrnustjórastöðu félagsins. Nú lítur hins vegar út fyrir að hann vilji ekki starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×