Þetta hefur Wall Street Journal eftir heimildarmönnum sínum úr stjórnsýslu Bandaríkjanna og í Þýskalandi. Politico hefur einnig heimildir fyrir því að líklega verði skriðdrekar sendir frá Bandaríkjunum til Úkraínu og að verið sé að tala um þrjátíu til fimmtíu skriðdreka.
Hingað til hafa Bandaríkjamenn ekki viljað senda umrædda skriðdreka til Úkraínu því þeir ganga á sérstöku eldsneyti og þurfa umfangsmeiri innviði til viðhalds og viðgerða en aðrir skriðdrekar. Innviði sem eru ekki til staðar og Bandaríkjamenn segja að taki tíma til að byggja upp. Einnig þurfi reynslu til að gera við þá og það taki einnig tíma að öðlast hana.
Bæði Bandaríkjamenn og Þjóðverjar eru að senda töluvert magn bryndreka til Úkraínu.
Sjá einnig: Senda vestræna bryndreka til Úkraínu
Ráðamenn nokkurra ríkja í Evrópu hafa sagst vilja senda þýska skriðdreka til Úkraínu. Þrettán ríki eru sögð nota Leopard 2 skriðdreka sem framleiddir eru í Þýskalandi og eru tvö þúsund slíkir sagðir í notkun í heimsálfunni. Úkraínumenn hafa lengi beðið Þjóðverja um að senda sér skriðdreka.
Pólverjar hafa að undanförnu beitt Þjóðverja miklum þrýstingi en þeir síðarnefndu hafa dregið lappirnar í að leyfa Pólverjum og öðrum að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu. Þjóðverjar hafa sagt að aðrir bakhjarlar Úkraínu þurfi einnig að senda skriðdreka.
Eftir langvarandi þrátefli á víglínunum vinna bæði Rússar og Úkraínumenn að því að byggja upp nýjar herdeildir fyrir frekari átök þegar vorið nálgast. Úkraínumenn segja vopnasendingar þeim gífurlega mikilvægar og því fyrr sem þeir fái vopn því betra.
Sjá einnig: Telur hæpið að Rússar verði reknir á brott á þessu ári
Pólverjar báðu Þjóðverja formlega um leyfi til að senda skriðdrekana í morgun, eftir margra vikna viðræður og jafnvel deilur.
Bloomberg hefur heimildir fyrir því að Scholz muni gefa Pólverjum grænt ljós á morgun.
Þá fór Sauli Niinisto, forseti Finnlands, í óvænta heimsókn til Kænugarðs í morgun. Finnar eru meðal þeirra sem hafa sagst vilja senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu.
Eftir fund Niinisto og Vólódímírs Selenskís, forseta Úkraínu, sagði sá síðarnefndi að þeir hefðu meðal annars rætt skriðdrekasendingar og það að skapa vettvang þar sem fleiri ríki geta stutt Úkraínu með vopnasendingum.
Niinistö heimsótti einnig Bucha og Borodianka og sagði að draga þyrfti rússneska hermenn til ábyrgðar fyrir ódæði þeirra þar.
Visited Borodianka and Bucha. The atrocities committed here must not go unpunished.
— Sauli Niinistö (@niinisto) January 24, 2023
I remain deeply impressed by the courage and determination of the Ukrainian people, soldiers and civilians alike. It will be remembered for generations to come. pic.twitter.com/LQo6Vq8Q98
Sjá góða leið til að koma boltanum af stað
Bretar tilkynntu nýverið að þeir ætluðu að senda fjórtán Challenger 2 skriðdreka til Úkraínu, fyrstir Vesturlandabúa. Þá breyttu Þjóðverjar um tón og sögðu að Bandaríkjamenn þyrftu einnig að senda skriðdreka.
Í frétt WSJ segir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hafi rætt saman í síma fyrir viku síðan og þá hafi Biden lofað því að skoða það hvort Bandaríkjamenn gætu sent sína skriðdreka til Úkraínu. Innan veggja Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna er það ekki talin hagkvæm lausn.
Embættismenn í Hvíta húsinu og Utanríkisráðuneytinu eru þó sagðir sjá málið í öðru ljósi. Þeir eru sagðir hafa orðið pirraðir yfir hiki Þjóðverja en sjá fyrir sér að með því að senda M1 Abrams skriðdreka sé hægt að koma í veg fyrir frekari deilur meðal bakhjarla Úkraínu og opna á skriðdrekasendingar.
Þýskur embættismaður sagði miðlinum að miklar viðræður hafi átt sér stað á milli ríkjanna og mögulega hafi fengist niðurstaða í þær.