Enski boltinn

West Ham vann falls­laginn | Fergu­son bjargað stigi fyrir Brig­hton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jarrod Bowen skoraði tvö í dag.
Jarrod Bowen skoraði tvö í dag. Rob Newell/Getty Images

West Ham United vann 2-0 sigur á Everton í einum af fjórum leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni sem hófst klukkan 15.00. Brighton & Hove Albion gerði 2-2 jafntefli við Leicester City á útivelli, Bournemouth og Nottingham Forest gerðu 1-1 jafntefli á meðan Aston Villa vann 1-0 útisigur á Southampton.

Leikur West Ham og Everton í Lundúnum var sannkallaður sex stiga leikur en hvorugt liðið hefur átt góðu gengi að fagna undanfarið. Hamrarnir unnu á endanum 2-0 sigur þökk sé tvennu frá Jarrod Bowen í fyrr hálfleik. Þetta var fyrsti sigur West Ham í deildinni síðan 24. október. Á sama tíma hefur Everton ekki unnið í síðustu átta deildarleikjum.

Kaoru Mitoma kom Brighton yfir gegn Leicester City en Marc Albrighton og Harvey Barnes svöruðu fyrir heimamenn. Hinn ungi Evan Ferguson jafnaði metin undir lok leiks og þar við sat, lokatölur 2-2.

Jaidon Anthony kom Bournemouth yfir gegn Forest eftir að mark hafði verið dæmt af gestunum frá Nottingham. Varamaðurinn Sam Surridge kom boltanum hins vegar í netið þegar lítið var eftir og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Ollie Watkins skoraði svo eina löglega markið í 1-0 sigri Villa á Southampton en James Ward-Prowse skoraði fyrir heimamenn en markið var dæmt af.

Brighton er í 6. sæti með 31 stig að loknum 19 leikjum. Villa er í 11. sæti með 28 stig eftir 20 leiki, Nottingham er í 13. sæti með 21 stig. Leicester og West Ham koma þar á eftir með 18 stig hvort. Bournemouth er svo í 18. sæti með 17 stig á meðan Everton og Southampton eru í botnsætunum tveimur með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×