Fótbolti

Messi og félagar flúðu í þyrlu þegar æsingurinn varð of mikill

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir Argentínumenn misstu sig alveg í gleðinni yfir fyrsta heimsmeistaratitli þjóðarinnar í fótbolta síðan 1986.
Margir Argentínumenn misstu sig alveg í gleðinni yfir fyrsta heimsmeistaratitli þjóðarinnar í fótbolta síðan 1986. Getty/Alejo Manuel Avila

Áhuginn á sigurskrúðgöngu argentínsku heimsmeistaranna var það mikill í heimalandinu að leikmenn liðsins urðu að flýja af vettvangi.

Um fjórar milljónir manna voru á götunum í Buenos Aires þegar argentínska landsliðið keyrði um göturnar í opinni rútu með það markmið að komast að Obelisco minnismerkinu.

Forráðamenn argentínska knattspyrnusambandsins ætluðu að gefa sér átta klukkutíma til að komast alla leið sem var um þrjátíu kílómetra. Eftir fimm klukkutíma voru þeir langt á eftir áætlun og komust lítið sem ekkert áfram fyrir fólksfjöldanum sem hópaðist að rútunni.

Á endanum gripu menn til þess ráðs að fljúga með leikmennina í burtu í þyrlu því ekki voru þeir að fara neitt með rútunni. Áhuginn og ákafinn í sumum var líka orðinn það mikill að menn fóru að óttast um öryggi leikmanna og annarra þegar rútan komst lítið sem ekkert áfram.

Æstir aðdáendur voru farnir að stökkva ofan á rútuna þegar hún keyrði undir brýr og því var ekkert annað í stöðunni en að koma hetjunum í skjól.

Það voru örugglega margir svekktir yfir því að fá ekki að sjá hetjurnar sínar með berum augun ekki síst þeir sem höfðu gist á torginu með Obelisco súlunni frægu.

Hér fyrir neðan má sjá brot frá þessum ótrúlega degi og af þessum ótrúlega fjölda fólks á götunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×