Loksins skoraði Lewandowski á HM og Pólverjar upp í efsta sæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Robert Lewandowski skoraði loksins sitt fyrsta HM-mark.
Robert Lewandowski skoraði loksins sitt fyrsta HM-mark. Pawel Andrachiewicz/PressFocus/MB Media/Getty Images

Pólverjar unnu mikilvægan 2-0 sigur er liðið mætti Sádí-Arabíu í C-riðli heimsmeistaramótsins í Katar. Sigurinn lyftir Pólverjum upp í efsta sæti riðilsins og setur bæði Mexíkó og Argentínu í erfiða stöðu fyrir seinni leik riðilsins í dag.

Það var Piotr Zielinski sem kom Pólverjum í forystu þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik eftir að Robert Lewandowski hafði gert vel í að halda boltanum í leik og koma honum fyrir markið þar sem Zielinski kláraði með föstu skoti.

Sádarnir fengu svo gullið tækifæri til að jafna metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Krystian Bielik braut á Saleh Al-Shehri innan vítateigs. Salem Al-Dawsari fór á vítapunktinn, en Wojciech Szczesny varði frá honum. Mohammed Al Burayk tók svo frákastið, en aftur varði Szczesny og Pólverjar fóru því með 1-0 forystu inn í hálfleikinn.

Það var svo markamaskínan Robert Lewandowski sem tryggði Pólverjum sigurinn með marki á 82. mínútu og lokatölur því 2-0. Ótrúlegt en satt þá var þetta fyrsta mark þessa 34 ára gamla framherja á HM.

Pólverjar tróna nú á toppi C-riðils með fjögur stig eftir tvo leiki, einu stigi meira en Sádí-Arabía sem situr í öðru sæti. Mexíkó og Argentína mætast svo í gríðarlega mikilvægum leik síðar í dag þar sem tapliðið fer langleiðina með að stimpla sig úr keppni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira