Þúsundir ferðalanga hafa fundið fyrir röskunum á flugvöllum undanfarnar vikur, þar á meðal týndum töskum, frestunum og aflýsingum á flugum. Ástæðurnar fyrir þessum röskunum eru að flugvellir og flugfélög um allan heim hafa átt í erfiðleikum með að ráða aftur starfsfólk eftir að hafa sagt upp fjölda fólks í heimsfaraldrinum.
Heathrow-flugvöllur hefur átt í miklum erfiðleikum með að eiga við aukinn fjölda farþega í vor og sumar. Stjórnendur flugvallarins hafa því ákveðið að takmarka daglegan fjölda farþega sem fljúga frá vellinum yfir sumarmánuðina í 100 þúsund. Það er fjögur þúsund farþegum minna en áætlanir gera ráð fyrir. Takmarkanirnar verða í gildi fram til 11. september.
Samkvæmt frétt BBC hafa neytendasamtök á Bretlandi hvatt Heathrow til að skýra frá því hvaða flugum verði aflýst. Þó þessar takmarkanir muni vafalaust auðvelda hina „óviðunandi ringulreið“ sem farþegar hafa þurft að þola á vellinum þá muni þúsundir fólks nú hafa áhyggjur af því að flugferðir þeirra og sumarfrí verði fyrir áhrifum breytinganna.
Biðla til flugfélaga að selja færri miða
„Undanfarnar vikur, þegar fjöldi farþega á brottför hefur reglulega farið fram úr 100 þúsund á dag, höfum við séð tímabil þar sem þjónusta fer niður fyrir stig sem er óásættanlegt,“ segir John Holland-Kaye, framkvæmdastjóri Heathrow.
Þar á meðal nefnir hann langar biðraðir, seinkanir fyrir farþega sem þurfa á aðstoð að halda, töskur sem fara ekki með farþegum eða koma seint, lítil stundvísi og aflýsingar á síðustu stundu.
„Okkar mat er að hámarks fjöldi farþega sem eru á brottför, sem flugfélög, flugafgreiðsla og flugvöllurinn geta sinnt í sameiningu, sé ekki meiri en 100 þúsund,“ segir Holland-Kaye.
Hann segir nýjustu spár gera ráð fyrir að yfir sumarið verði að meðaltali 104 þúsund farþegar sem fljúgi daglega frá Heathrow en það sé 4.000 sætum of mikið. Hins vegar segir hann að það sé aðeins búið að selja um 1.500 af þessum 4.000 daglegu sætum og því hafi flugvöllurinn beðið flugfélög um að hætta að selja sumarmiða til að minnka áhrifin.
Fari daglegur fjöldi fram úr 100 þúsund gæti komið til þess að flugum verði aflýst.