Greint var frá niðurstöðunum í fréttum Stöðvar 2 en Samgöngufélagið fékk fyrirtækið Envalys til að vinna könnunina. Jafnframt voru gerð myndskeið til að svarendur gætu glöggvað sig betur á því hvernig færsla hringvegarins á þessum tveimur stöðum á Vesturlandi kæmi til með að líta út, annarsvegar framhjá þéttbýlinu í Borgarnesi og hins vegar yfir Grunnafjörð milli Akraness og Borgarness.

Niðurstöður liggja núna fyrir en í afstöðu til vegfyllingar við Borgarnes voru þátttakendur beðnir um að svara því á kvarðanum núll til sex hversu andvígir eða hlynntir þeir væru færslu Hringvegar um Borgarnes. Niðurstaðan varð 5,06, þar sem talan núll táknar þá sem eru mjög andvígir, talan þrír hvorki né og talan sex þá sem eru mjög hlynntir, en 995 manns svöruðu spurningunni.

Í afstöðu til færslu hringvegarins milli Hvalfjarðarganga og Borgarness vestur fyrir Akrafjall og yfir Grunnafjörð varð niðurstaðan 4,23 á sama kvarða þar sem talan núll táknar mjög andvíga og talan sex mjög hlynnta, en 1.127 manns svöruðu þessari spurningu.

Jónas B. Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, segir könnuna sýna verulegan stuðning við að hringvegurinn verði færður út úr þéttbýlinu í Borgarnesi. Íbúar í Borgarnesi sögðust þó andvígastir slíkri færslu vegarins meðan íbúar utan Borgarbyggðar voru hlynntastir.

Hin spurningin, um þverun Grunnafjarðar, hlaut allmikinn stuðning, að mati Jónasar. Íbúar á Akranesi reyndust hlynntastir slíkri færslu hringvegarins vestur fyrir Akrafjall en með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness um sjö kílómetra.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: