Skoðun

Hafn­firðingar eru hamingju­samir

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar

Í nýlegri könnun sem Gallup gerði kemur fram að um 90% íbúa Hafnarfjarðar eru ánægðir með bæinn sinn. Hamingja er fjölþætt fyrirbæri og erfitt að fullyrða hvaða þættir fylla okkur hamingju. En ánægja ásamt gleði er talinn vera einn þeirra þátta sem auka okkur hamingju og því vel hægt að ímynda sér að hamingjustuðullinn hér í Hafnarfirði sé með hæsta móti.

Samkvæmt niðurstöðunum er greinilega gott að búa í Hafnarfirði. Að búa í samfélagi þar sem næstum allir eru ánægðir límir okkur saman sem hér búum og bætir samskipti og almenna lífsgleði.

Hafnarfjörður var fyrsta sveitarfélagið sem varð heilsubær á Íslandi

Hafnarfjörður hefur á síðustu árum unnið markvisst að því að auka ánægju bæjarbúa með ýmsum leiðum.

Fyrst ber að nefna verkefnið Heilsubærinn Hafnarfjörður sem gerði Hafnarfjörð að fyrsta sveitarfélaginu sem varð heilsubær á Íslandi. Ráðist hefur verið í ýmis verkefni sem stuðla að bættri lýðheilsu eins og Janus heilsueflingu fyrir eldri borgara, hreystibrautir settar upp, opin fræðsluerindi haldin, frítt í sund fyrir alla 18 ára og yngri, heilsubótagöngur með fræðslu á sumrin og margt fleira.

Menning og listir auka gleði og hamingju og við í Sjálfstæðisflokknum höfum leitað allra leiða til að styrkja betur við menningu og listir bæði með auknum styrkjum og sýnileika. Má þar til dæmis nefna bæjarhátíðina Heima í Hafnarfirði og Hjarta Hafnarfjarðar. Í Covid leituðum við einnig leiða til að sem flestir bæjarbúar gætu fundið sér afþreyingu og skreyttum meðal annars Hellisgerði jólin 2020 svo allar jólakúlur kæmust út að ganga.

Höldum áfram á þessari braut og setjum X við D á laugardaginn – fyrir áframhaldandi hamingju í Hafnarfirði. Einnig til þess að við getum fundið út af hverju 10% íbúa eru ekki ánægðir og hækkað þannig ánægjuvísitöluna í bænum okkar.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og varaþingmaður, sem skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×