Málið má rekja til þess að hóp bandarískra ferðamanna var flogið til Hornstranda á tveimur þyrlum í júlí 2020. Umhverfisstofnun kærði málið til lögreglu á þeim grundvelli að óheimilt væri að lenda í friðlandinu án leyfis stofnunarinnar.
Tekist var á um málið í Héraðsdómi Vesturlands þar sem þyrlufyrirtækið, framkvæmdastjórinn og flugmennirnir tveir voru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins.
Byggði héraðsdómur sýknuna á því að ákvæði í stjórnunar- og verndaráætlun friðlandsins, þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að lenda þyrlum innnan friðlandsins nema með leyfi Umhverfisstofnunar, ætti sér ekki fullnægjandi lagastoð í lögum um náttúruvernd.
Málinu var áfrýjað til Landsréttar þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu, reglurnar sem giltu í friðlandinu ætti sér stoð í lögum. Var þyrlufyrirtækið dæmt til að greiða 150 þúsund krónur í sekt en framkvæmdastjórinn og flugmennirnir 75 þúsund krónur hver.
Ákveðið var að óska eftir leyfi til að skjóta dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Vildu þeir meina að refsiheimildin sem deilt var um væri ekki að finna í auglýsingu um staðfestingu á stjórnun- og verndaráætlun friðlandsins á Hornströndum.
Hafi almenna þýðingu að leysa úr málinu
Að auki var vísað í 215. grein laga um meðferð sakamála, þar sem fram kemur meðal annars að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli verða við ósk hans eða ákæruvaldsins um áfrýjunarleyfi, nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.
Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að úrlausn málsins kunni að hafa verulega almenna þýðingu. Var einnig vísað í að leyfisbeiðendur voru sakfelldir í Landsrétti en höfðu verið sýknaðir í héraði. Þegar þannig hagar til skal að jafnaði orðið við ósk um áfrýjunarleyfi. Var beiðnin því samþykkt.