Þetta segir á heimasíðu Neytendastofu. Þar segir að stofnunin hafi skoðað vefsíður bílasala með notaða bíla í júlí 2021. Tilgangur skoðunarinnar hafi verið að athuga hvort þar væru að finna tilboðsauglýsingar á bílum án þess að fram kæmi fyrra verð. Stofnunin skoðaði 72 vefsíður og hafi þá komið í ljós að tilefni hafi verið til athugasemda við 53 þeirra.
„Neytendastofa sendi bílasölunum bréf þar sem vakin var athygli á skyldu til að kynna aðeins verðlækkun sem er raunveruleg og að taka fram fyrra verð þegar tilboð er kynnt. Í bréfinu voru jafnframt sett fram tilmæli um að gæta þess að fara að þeim lögum og reglum er gilda um auglýsingar og tilboðsmerkingar.
Neytendastofa fylgdi skoðuninni eftir í lok janúar sl. og enn voru tilboðsauglýsingar á vefsíðum 46 bílasala í ólagi. Í kjölfar athugasemda Neytendastofu voru gerðar viðeigandi úrbætur hjá 44 bílasölum
Tvær bílasölur brugðust hins vegar ekki við erindum Neytendastofu og gerðu ekki úrbætur á vefsíðum sínum. Því hefur stofnunin nú tekið ákvörðun um að banna Bílakaup ehf. og Netbílum ehf. að auglýsa tilboð á bifreiðum án tilgreinds fyrra verðs,“ segir á heimasíðunni.
Verði ekki farið að banninu mega bílasölurnar búast við að tekin verði ákvörðun um sektir á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.