Fótbolti

Ancelotti með veiruna og gæti misst af endurkomunni á Brúnna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlo Ancelotti tók aftur við Real Madrid fyrir tímabilið. Hann stýrði liðinu áður á árunum 2013-15.
Carlo Ancelotti tók aftur við Real Madrid fyrir tímabilið. Hann stýrði liðinu áður á árunum 2013-15. getty/Diego Souto

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur greinst með kórónuveiruna. Hann gæti misst af endurkomu á sinn gamla heimavöll, Stamford Bridge, í næstu viku.

Real Madrid greindi frá því í dag að veiran skæða hefði náð í skottið á Ancelotti. Ljóst er að hann getur ekki verið á hliðarlínunni þegar Real Madrid mætir Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Real Madrid mætir Evrópumeisturum Chelsea á Stamford Bridge í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn í næstu viku. Ancelotti verður í kapphlaupi við tímann að ná þeim leik en hann þarf að greinast með neikvætt sýni til að fá að fara með til Englands.

Ancelotti þekkir vel til hjá Chelsea en hann stýrði liðinu á árunum 2009-11. Á fyrra tímabili hans á Stamford Bridge vann Chelsea tvöfalt.

Real Madrid steinlá fyrir Barcelona, 0-4, í síðasta leik sínum fyrir landsleikjahléið. Þrátt fyrir það eru Madrídingar með níu stiga forskot á toppi spænsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×