Fótbolti

Ó­víst hversu lengi Hazard verður frá: Meiðst sex­tán sinnum á síðustu þremur árum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það hefur lítið gengið upp hjá Eden Hazard undanfarin misseri.
Það hefur lítið gengið upp hjá Eden Hazard undanfarin misseri. vísir/Getty

Það á ekki af Eden Hazard, leikmanni Real Madríd og belgíska landsliðsins í knattspyrnu að ganga. Hann gekkst nýverið undir aðgerð vegna meiðsla á fæti og er alls óvíst hvenær hann snýr aftur á völlinn. Dvöl hans í Madríd hefur verið þyrnum stráð þar sem lítið sem ekkert hefur gengið upp.

Hinn 31 árs gamli Hazard gekk í raðir Real sumarið 2019 fyrir rúmlega 100 milljónir evra og átti að hjálpa liðinu að komast yfir brotthvarf Cristiano Ronaldo sem gekk í raðir Juventus ári áður. 

Belgíski vængmaðurinn hefur hins vegar átt vægast sagt erfitt með að fóta sig í Madríd og hefur verið gagnrýndur fyrir að leggja sig ekki nægilega mikið fram. 

Það er hins vegar deginum ljósara að meiðsli hafa einnig sett strik í reikninginn og spila þau stóran þátt í að hann hefur ekki enn sýnt sömu takta með Real og hann gerði hjá Chelsea á árum áður.

Hazard þurfti að fara undir hnífinn vegna meiðsla á dálki (e. fibula) en alls hefur vængmaðurinn meiðst sextán sinnum síðan hann gekk í raðir Real.

Leikmaðurinn rennur út á samningi sumarið 2024 en það er næsta víst að hann fæst á tombóluverði í sumar, það er ef eitthvað lið vill taka hann á þeim gríðarháu launum sem hann er í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×