Skoðun

Tökum til borginni

Sandra Hlíf Ocares skrifar

Breyttir tímar eru framundan og skýrt ákall er um raunverulegar aðgerðir eftir kyrrstöðu undanfarinna ára. Það tímabil hefur sýnt okkur hvaða verkefni borgaryfirvalda skipta mestu máli – grunnþjónusta við borgarbúa. Grunnþjónustan hefur setið á hakanum eins og borgarbúar hafa ítrekað orðið varir við. Það þarf að taka til í borginni.

Jöfn tækifæri fyrir börnin í borginni

Ég vil sjá til þess borgin setji meiri fjármuni í barnaverndarkerfið svo hægt sé að mæta þeim börnum sem á þurfa að halda af þeirri alúð og hlýju sem þau eiga skilið. Það er mikilvæg forsenda jafnra tækifæra.

Gott velferðarkerfi er grundvöllur þess að samfélagið okkar veiti öllum börnum og öllu fólki jöfn tækifæri til að rækta hæfileika sína. Það er ekki aðeins sjálfsagt sanngirnismál heldur mikilvægt efnahagsmál. Þegar við sköpum börnum jöfn tækifæri vinnum við best að velferð samfélagsins okkar og tryggjum því sem best verðmæti í framtíðinni.

Vorið er tími breytinga í borginni

Borgin líður nú fyrir of mikla yfirbyggingu og kerfishugsun með tilheyrandi peningaaustri í verkefni sem skipta borgarbúa í raun engu. Það styttir ekki boðleiðir og bætir ekki þjónustu við borgarbúa að þenja sífellt út yfirbyggingu borgarkerfisins, ráða skrifstofustjóra yfir skrifstofustjóra og upplýsingafulltrúa yfir upplýsingafulltrúa.

Þjónusta við fólkið í borginni hefur mætt afgangi og þarfir þess hafa ekki verið i forgangi. Þessu vil ég breyta. Ég trúi því að með nýrri og lausnamiðaðri hugsun megi leysa vanda fjölskyldufólks, bæði húsnæðisvandann og seinagang í borgarkerfinu og eyða ákvarðanafælni.

Ég vona innilega að vorið færi okkur breytingar í borginni. Undanfarin tvö ár hafa minnt okkur á það hvað borgir eiga að leggja áherslu á en það er þjónusta við fólk. Ég vil bretta upp ermar og leggja mitt að mörkum til að taka til í borginni og bæta um leið þjónustu við fólkið í borginni. Ég býð fram krafta mína og reynslu í það verkefni. Til þess þarf ég þinn stuðning í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu 18. og 19. mars.

Höfundur býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×