Loftvarnaflautur hljómuðu um Kænugarð höfuðborg Úkraínu í morgun annan daginn í röð. Götur borgarinnar eru nánast auðar. Fólk heldur sig heima, er í kjallurum, neðanjarðarlestarstöðvum eða á flótta frá borginni.
Rússneskir skriðdrekar og brynvarðir bílar komu inn í Obolonsky hverfið í norðurhluta Kænugarðs í morgun og hersveitir sækja að borginni bæði úr norðri og austri. Frá Obolonsky liggur beinn vegur í suðurátt að Rada þinghúsi Úkraínu.
Í nótt skutu Rússar stórskotum að fjölbýlishúsi í Obolonsky hverfinu. Miklar skemmdir urðu á húsinu en engan sakaði. Þá hafa Rússar skotið flugskeytum á skotmörk hér og þar um landið í nótt að sögn Volodymyr Zelenskyy forseta Úkraínu. Rússar ljúgi því að þeir ráðist ekki að borgaralegum skotmörkum.
Rússar fullyrða að 150 úkraínskir hermenn hafi lagt niður vopn í austurhéruðunum. Fullyrðingar eru um mannfall á báða bóga. Bæði Rússar og Úkraínumenn segja að hundruð manna hafi fallið í átökum frá því í gær.

Rússar segja markmið innrásarinnar að lama her Úkraínumanna. Á sama tíma kalla stjórnvöld í Úkraínu almenning til vopna án aldurstakmarkana og hafa beitt neyðarlögum til að banna karlmönnum á aldrinum 18 til sextíu ára að yfirgefa landið. Engu að síður er stríður straumur fólks á flótta til nágrannaríkja í vestri.
„Öflugustu ríki heims horfa á átökin úr fjarska. Sannfærðu refsiaðgerðir gærdagsins Rússa,“ spyr Zelenskyy forseti. „Við heyrum það úr lofti og sjáum það á jörðu niðri að þær aðgerðir duga ekki til. Erlendur her reynir enn að gera sig gildandi á landsvæði okkar,“ sagði forsetinn í ávarpi til þjóðarinnar í morgun.
Robert Habeck efnhags- og loftslagsráðherra Þýskalands segir fulltrúa Vesturlanda fyrr eða síðar verða að ræða við Rússa og það væru fleiri áhrifamenn í Rússlandi en Putin sem virtist veruleikafirrtur. Þýskaland og fleiri ríki væru mjög háð Rússum um kol og jarðgas. Í dag fengju Þjóðverjar um og yfir helming allra kola og jarðsgass frá Rússlandi.

Habeck segir kaldhæðinslegt að staðan nú gæti hjálpað til við orkuskipti í Þýskalandi og Evrópu.
„Nú sér fólk að orkuskiptin eru ekki einungis loftslagsmál heldur einnig öryggis- og varnarmál,“ segir þýski efnahags- og loftslagsráðherrann. Vopnin geti því snúist í höndum Putins ef evrópuríki flýti orkuskiptunum og verði þar með minna háð orkugjöfum frá Rússlandi.