Fótbolti

Sjö mörk, þrjú víti og eitt rautt í ótrúlegum sigri Spánarmeistaranna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Atletico Madrid fögnuðu vel og innilega þegar Mario Hermoso skoraði sigurmark liðsins á lokamínútum leiksins.
Leikmenn Atletico Madrid fögnuðu vel og innilega þegar Mario Hermoso skoraði sigurmark liðsins á lokamínútum leiksins. David S. Bustamante/Soccrates/Getty Images

Spánarmeistarar Atletico Madrid unnu 4-3 sigur er liðið tók á móti Getafe í ótrúlegum leik í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Heimamenn í Atletico fengu vítaspyrnu þegar aðeins rétt tæpar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. David Soria, markvörður Getafe braut þá á Luis Suarez innan vítateigs, en gerði sér svo lítið fyrir og varði spyrnuna sem Suarez tók sjálfur.

Heimamenn komust þó yfir á 19. mínútu leiksins með marki frá Angel Correa, áður en Matheus Cunha tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar.

Enn var þó nóg eftir af fyrri hálfleik og Borja Mayoral minnkaði muninn fyrir Getafe eftir hálftíma leik. Gestirnir jöfnuðu svo metin á 37. mínútu þegar Enes Unal skoraði af vítapunktinum eftir að Matheus Cunha handlék knöttinn innan vítateigs.

Enes Unal kom gestunum yfir fimm mínútum síðar, en aftur skoraði hann af vítapunktinum. Í þetta sinn hafði Thomas Lemar verið sökudólgurinn í liði Atletico, en eins og liðsfélagi sinn handlék hann knöttinn innan vítateigs.

Viðburðarríkur hálfleikur sem þessi kallar á langan uppbótartíma og fjórði dómari leiksins tilkynnti leikmönnum og áhorfendum um að hann yrði í það minnsta sjö mínútur. Á fjórðu mínútu uppbótartíma skoraði Angel Correa þriðja mark Atletico og sá til þess að staðan var jöfn, 3-3, þegar loks var flautað til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var ekki alvega jafn pakkaður af atvikum og sá fyrri, en þó er af nægu að taka þaðan. Heimamenn komu sér sjálfir í klandur þegar Felipe fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot á Borja Mayoral eftir tæplega klukkutíma leik og því þurftu þeir að spila manni færri seinasta hálftíman.

Það virtist þó ekki koma að sök þar sem að Mario Hermoso skoraði sigurmark liðsins á 89. mínútu eftir stoðsendingu frá Joao Felix.

Niðurstaðan varð því 4-3 sigur Atletico Madrid í ótrúlegum leik. Liðið situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 37 stig eftir 23 leiki, einu stigi minna en Barcelona sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu. Getafe situr hins vegar í 14. sæti með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×