Fótbolti

Barcelona stað­festir komu Tra­oré

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Adama Traoré er kominn heim.
Adama Traoré er kominn heim. Twitter/@FCBarcelona

Spænska stórveldið Barcelona hefur staðfest endurkomu vængmannsins Adama Traoré. Hann gengur til liðs við Börsunga á láni frá enska knattspyrnufélaginu Wolves en Barcelona getur keypt leikmanninn á 29 milljónir punda í sumar.

Traoré var hluti af unglingastarfi Barcelona á sínum tíma en hefur á undanförnum árum flakkað á milli liða á Englandi. Árið 2015 gekk hann í raðir Aston Villa, ári síðar var hann mættur til Middlesbrough og árið 2018 samdi hann við Wolves.

Loksins loksins hefur hinn 26 ára gamli Traoré fengið félagaskipti drauma sinna en hann er kominn aftur á heimaslóðir.

Adama hefur verið orðaður við Tottenham Hotspur á undanförnum vikum en eftir að Barcelona kom inn í myndina var aldrei spurning hvar þessi sterkbyggði kantmaður myndi enda.

Adama Traoré lék á sínum tíma einn deildarleik fyrir Barcelona en þeir ættu að verða fleiri áður en tímabilið er úti. Hann á að baki 8 A-landsleiki fyrir Spán sem og fjölda yngri landsleikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×