Vandræði Barcelona halda áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Barcelona hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu.
Barcelona hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu. Quality Sport Images/Getty Images

Spænska stórveldi Barcelona þurfti að sætta sig við 2-2 jafntefli er liðið heimsótti Osasuna í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Hinn nítján ára Nico González kom Börsungum yfir strac á tólftu mínútu eftir stoðsendingu frá hinum sautján ára Gavi.

Forysta gestanna lifði þó ekki lengi því David Garcia jafnaði metin fyrir heimamenn tveimur mínútum síðar og staðan var 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var ekki nema rétt um fjögurra mínútna gamall þegar Börsungar tóku forystuna á ný, en nú var á ferðinni annar nítján ára strákur, Abdessamad Ezzalzouli, eða Abde.

Abde notfærði sér þá mistök í vörn heimamanna þegar Unai Garcia mistókst að koma fyrirgjöf Ousmane Dembele frá marki, boltinn datt þá fyrir Abde sem kláraði færið vel.

Forysta Börsunga lifði mun lengur í seinna skiptið en það fyrra, en heimamenn jöfnuðu þó metin á 87. mínútu með marki frá Ezequiel Avila.

Lokatölur urðu því 2-2, en Barcelona situr enn í áttunda sæti deildarinnar með 24  stig, heilum 15 stigum á eftir toppliði Real Madrid. Osasuna situr hins vegar í tíunda sæti, aðeins tveimur stigum á eftir Börsungum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira