Fótbolti

Byrjaði fyrsta landsleikinn á sjálfsmarki en endaði hann með þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Canestrelli fagnar einu marka sinna í gær.
Simone Canestrelli fagnar einu marka sinna í gær. Getty/Vincenzo Izzo

Knattspyrnumaðurinn Simone Canestrelli átti ótrúlegan fyrsta leik með ítalska 21 árs landsliðinu í gær.

Canestrelli lék sinn fyrsta leik fyrir U21 lið Ítala í 4-2 sigri á Rúmeníu í vináttlandsleik á Stadio Benito Stirpe.

Canestrelli, sem er miðvörður, byrjaði leikinn hörmulega þegar hann sendi boltann í eigið mark á 29. mínútu. Rúmenar komust í 2-0 og voru 2-1 yfir í hálfleik.

Þá tók Canestrelli til sinna ráða og raðaði inn mörkum í rétt mark.

Hann jafnaði metin á 61. mínútu, kom Ítölum yfir sjö mínútum síðar og endaði síðan á því að innsigla sigurinn með fjórða markinu og hans þriðja á aðeins tíu mínútum.

Öll þrjú mörkin skoraði Canestrelli með skalla.

Simone Canestrelli er fæddur árið 2000 og spilar með Crotone á lánssamning. Hann kom upp hjá Empoli sem lánaði hann til Crotone.

Canestrelli hafði spilað þrettán leiki fyrir önnur yngri landslið Ítala og aðeins skorað í þeim eitt mark enda varnarmaður.

Hann hefur skorað tvö mörk í tíu leikjum með Crotone í ítölsku b-deildinni á þessu tímabilinu en bæði mörkin komu í sama leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×