Fótbolti

Simeone sá rautt er spænsku meistararnir misstigu sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Diego Simeone þurfti að fylgjast með seinustu mínútum leiksins úr stúkunni.
Diego Simeone þurfti að fylgjast með seinustu mínútum leiksins úr stúkunni. David S. Bustamante/Soccrates/Getty Images

Spænsku deildarmeistararnir Atlético Madrid unnu 2-1 sigur er liðið heimsótti Levante í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. 

Antoine Griezmann kom gestunum í Atlético yfir strax á 12. mínútu, áður en Enis Bardhi jafnaði metin 25 mínútum síðar af vítapunktinum. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik stöðvaði dómarinn leikinn og spjaldaði Diego Simeone, þjálfara Atlético Madrid, fyrir óíþróttamannslega framkomu, en það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka kom Matheus Cunha gestunum í Atlético yfir á nýjan leik eftir stoðsendingu frá Rodrigo De Paul.

Tæpum fimm mínútum síðar stöðvaði dómarinn leikinn og gaf Simeone sitt annað gula spjald fyrir óíþróttamannslega hegðun, og þar með rautt. Þjálfarinn litskrúðugi þurfti því að fá sér sæti uppi í stúku það sem eftir var af leiknum.

Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka fengu liðsmenn Levante aðra vítaspyrnu þegar Renan Lodi handlék knöttinn innan vítateigs. Enis Bardhi fór aftur á punktinn og jafnaði metin af öryggi fyrir heimamenn.

Atlético Madrid er nú í sjötta sæti deildarinnar með 19 stig eftir tíu leiki. Levante situr hins vegar í næst neðsta sæti með sex stig eftir 11 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×