Fótbolti

AS líkir Andra Lucasi við Haaland

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er farinn að láta til sín taka hjá varaliði Real Madrid, sigursælasta félags í sögu Meistaradeildar Evrópu, og íslenska landsliðinu.
Andri Lucas Guðjohnsen er farinn að láta til sín taka hjá varaliði Real Madrid, sigursælasta félags í sögu Meistaradeildar Evrópu, og íslenska landsliðinu. Samsett/Real Madrid og AS.com

Spænska stórblaðið AS segir að Andri Lucas Guðjohnsen minni um margt á Erling Braut Haaland og muni mögulega leika sinn fyrsta leik fyrir aðallið Real Madrid í vetur.

Andri Lucas er farinn að láta til sín taka bæði með íslenska A-landsliðinu og varaliði Real Madrid þar sem hann leikur undir stjórn mikils markaskorara og einnar af goðsögnum félagsins; Raúl. 

Andri kom inn á sem varamaður gegn Norður-Makedóníu í síðasta mánuði og náði að tryggja Íslandi 2-2 jafntefli, og svipað var uppi á teningnum þegar hann nældi í vítaspyrnu og skoraði í 2-2 jafntefli varaliðs Real gegn Atlético Baleares. Hann skoraði svo sitt annað landsliðsmark í 4-0 sigrinum gegn Liechtenstein í gærkvöld.

AS segir að Andri Lucas sé ólíkur föður sínum sem hafi viljað vera aðeins fyrir aftan fremsta mann og kunnað að splundra vörnum með eitruðum sendingum. Andri Lucas sé hreinræktuð, 189 sentímetra „nía“ með kraftmikinn leikstíl sem þjálfarar hans hjá Real Madrid viðurkenni að þurfi að fínpússa. Þeir hafi hins vegar þegar séð nokkuð sem ekki sé hægt að kenna; auga fyrir því að skora mörk.

Þriðji eða fjórði kostur Ancelottis

Real Madrid er á höttunum eftir stjörnuleikmönnunum Haaland og Kylian Mbappé. AS bendir hins vegar á að félagið eigi nú þegar leikmann sem minni á Haaland en tekur fram að Íslendingurinn eigi enn margt ólært. Hann hafi til að mynda minnt á ungan Haaland með þrennunni sem hann skoraði fyrir U17-landslið Íslands gegn Þýskalandi árið 2019.

Samkvæmt AS er Andri Lucas fjórði í röðinni í keppninni um stöðu fremsta manns hjá aðalliði Real, á eftir Karim Benzema, Luka Jovic og Mariano. Hins vegar segir blaðið að í ljósi þess hve Mariano fái lítið að spila þá megi líta á Andra Lucas sem þriðja kost.

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, valdi Andra Lucas á varalista í Meistaradeildarhóp Real Madrid fyrir leiktíðina og AS segir líklegt að hann muni koma við sögu með aðalliðinu á þessari leiktíð, mögulega í spænsku bikarkeppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×