Þetta segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO og bætir við að þetta sé „sögulegur atburður“. BBC segir frá.
„Hið langþráða malaríubóluefni fyrir börn markar tímamót fyrir vísindin, heilbrigði barna og baráttuna gegn malaríu.“
Ghebreyesus segir að notkun bóluefnisins ásamt hefðbundnum úrræðum líkt og flugnanetum „gæti bjargað lífi tuga þúsunda á ári hverju“.

400 þúsund látast úr malaríu árlega
Malaría hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára, en um er að ræða snýkjudýr sem berst með biti moskítóflugna og ræðst á rauð blóðkorn og fjölgar sér þar.
Um 230 milljónir manna veikjast af malaríu á ári hverju á alþjóðavísu og um 400 þúsund láta lífið. Langverst er ástandið í Afríku sunnan Sahara, þar sem meira en 260 þúsund börn létust af völdum sjúkdómsins árið 2019.
Rúmlega 100 ára vinna að skila árangri
Rannsóknir á bóluefni gegn malaríu hafa staðið yfir í um það bil öld, en báru lengi vel ekki árangur þar sem mörg og fjölbreytt afbrigði eru til af sníkjudýrinu sem veldur sjúkdómnum.
Fyrir sex árum kom í ljós að efni að nafni RTS,S gæti virkað vel gegn malaríu. Bóluefnið var talið koma í veg fyrir smit í 40% tilfella og 30% af alvarlegum tilfellum. Þá fækkaði börnum sem þurftu blóðgjöf um þriðjung.
Það var þó ekki talið víst að efnið myndi gefa góða raun, þar sem það þarf fjóra skammta til að ná fullri virkni. Það var gefið fimm, sex, og sjö mánaða börnum og loks einn örvunarskammtur þegar þau eru átján mánaða.
Síðan þá hafa tilraunaverkefni í Gana, Kenía og Malaví gefið svo góða raun að WHO hefur gefið leyfi til almennrar notkunar.
Alls voru gefnar 2,3 milljónir skammta. Ekki varð vart við neinar alvarlegar aukaverkanir og efnið virkaði vel meðfram öðrum bóluefnum.
„Frá sjónarhorni vísinda eru þetta tímamót og frá sjónarhorni almannaheilsu er þetta sögulegt afrek,“ sagði Pedro Alonso, sem fer fyrir malaríuteymi WHO.
„Við höfum leitað að bóluefni gegn malaríu í meira en 100 ár og það mun bjarga lífum og hindra framgang sjúkdóma fyrir börn í Afríku.“