Vaxtabreytingin kemur í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabanka Íslands sem hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig þann 25. ágúst. Samhliða breytingum á útlánsvöxtum hækka vextir sparnaðarreikninga hjá Íslandsbanka um 0,15 til 0,25 prósentustig.
Yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka um 0,25 prósentustig og óverðtryggðir kjörvextir um 0,20 prósentustig.
Einnig hækka breytilegir óverðtryggðir kjörvextir Ergo og vextir bílalána og bílasamninga um 0,20 prósentustig. Allar vaxtabreytingarnar taka gildi á morgun, 7. september.
Arion banki eini bankinn sem hækkar vexti á lánum með föstum vöxtum
Íslandsbanki er síðasti viðskiptabankinn til að kynna vaxtahækkanir í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.
Landsbankinn reið á vaðið þann 31. ágúst og kynnti 0,20 prósentustiga hækkun á breytilegum vöxtum óverðtryggðra íbúðalána. Vextir á nýjum óverðtryggðum húsnæðislánum með föstum vöxtum haldast óbreyttir en vextir á sparireikningum hækka um 0,20 til 0,25 prósentustig.
Tveimur dögum síðar greindi Arion banki frá því að hann hygðist hækka óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti um 0,20 prósentustig og vexti nýrra lána með óverðtryggðum föstum vöxtum til þriggja ára um 0,14 prósentustig. Breytilegir óverðtryggðir innlánsvextir hjá Arion banka hækka um allt að 0,25 prósentustig.
Minna um vaxtabreytingar hjá lífeyrissjóðum
Þann 1. september síðastliðinn hækkaði Brú lífeyrissjóður breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,20 prósentustig og fasta vexti um 0,30 prósentustig. Á sama tíma lækkuðu breytilegir vextir á veðtryggðum lánum um 0,10 prósentustig.
Á sama tíma lækkaði Festa lífeyrissjóður fasta vexti verðtrygðgðra sjóðsfélagalána um 0,30 prósentustig um síðustu mánaðarmót. Engir aðrir lífeyrissjóðir hafa kynnt nýlegar vaxtabreytingar á heimasíðum sínum.
Bera má saman vaxtakjör banka og lífeyrissjóða á vef Aurbjargar.