Fótbolti

Arnór kom við sögu í tapi Venezia

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Sigurðsson hefur komið inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum Venezia. Liðið á enn eftir að skora og leitar sinna fyrstu stiga í deildinni.
Arnór Sigurðsson hefur komið inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum Venezia. Liðið á enn eftir að skora og leitar sinna fyrstu stiga í deildinni. Franco Romano/NurPhoto via Getty Images

Arnór Sigurðsson kom inn af varamannabekk Venezia er liðið tapaði 3-0 fyrir Udinese í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld. Hinir tveir Íslendingarnir í röðum Feneyjaliðsins voru ekki í leikmannahópnum.

Arnór, sem er á láni frá CSKA Moskvu, kom inn á sem varamaður á 72. mínútu leiksins í kvöld. Venezia var þá nýbúið að lenda 2-0 undir.

Argentínumaðurinn Ignacio Pussetto skoraði fyrra mark Udinese á 29. mínútu en Gerard Deulofeu, fyrrum leikmaður Barcelona og Everton, tvöfaldaði forystu Udinese á 70. mínútu leiksins.

Nahuel Molina skoraði þriðja mark Udinese í lok uppbótartíma.

Venezia tapaði 3-0, eftir að hafa tapað 2-0 fyrir Napoli í fyrstu umferð. Arnór kom þá einnig inn á sem varamaður í síðari hálfleik. Liðið er því án stiga eftir tvo leiki og á enn eftir að skora mark.

Hvorki Bjarki Steinn Bjarkason né Óttar Magnús Karlsson voru í leikmannahópi Venezia í kvöld.

Sigur hjá Hirti

Í ítölsku B-deildinni spilaði Hjörtur Hermannsson allan leikinn í hægri bakverði hjá Pisa sem vann 2-0 sigur á Alessandria. Lorenzo Lucca skoraði bæði mörk Pisa, það fyrra á 80. mínútu og það síðara fimm mínútum síðar.

Pisa er með fullt hús, sex stig, eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×