Í gær mynduðust myndarlegur hraunfoss í hlíðinni ofan við Nátthaga, svo myndarlegur að hann sástfrá Suðurstrandavegi.
Vísir fjallaði í gær um fossinn sem líkt var við Dettifoss, svo mikill var krafturinn í þunnfljótandi hraunánni.
Á Facebook-síðu Eldfjallafræði og náttúruvárhóp Háskóla Íslands kemur fram að hraunáin sem myndaði fossinn hafi runnið yfir Syðri-Meradali og yfir stíflu sem þar var reist til að hefta hraunflæði. Þaðan fossaðist hraunáin niður í Nátthaga.
Duglegt gos
Yfirborðsflæði frá gígnum í gær rann ekki lengur niður í Meradali, heldur stefndi niður í Syðri-Meradali og að hluta til í Geldingadali, þar sem gosið hófst upprunalega fyrir fimm mánuðum síðan.
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, ræddi stöðu gossins í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Hraunið flæddi í gær niður í Nátthaga. Það náði svona hálfa leið niður í dalinn í gær g ég reikna nú með að það haldi áfram að flæða í þá áttina þegar það tekur við sér aftur í næstu hrynu,“ sagði Þorvaldur.
Sagði hann ljóst að gosið væri kaflaskipt, það tæki sér um fimmtán tíma pásu á milli þess sem að töluverð virkni væri sjáanleg í um tuttugu tíma.
Spurður að því hvort að þetta þýddi að gosið væri prakkari stóð ekki á svörum hjá Þorvaldi.
„Jájá, þetta gos hefur mannast. Það er ekki hægt að segja annað. Það er bæði duglegt og heldur vel við. Það bara heldur áfram og hefur sinn eigin takt,“ sagði Þorvaldur.

Töluvert hefur verið rætt um að hraunið muni á endanum renna yfir Suðurstrandaveg. Þorvaldur segir það fara eftir því hversu lengi gosið standi yfir.
„Eftir því sem það stendur lengur því meira landsvæði þekur hraunið. Á endanum fer það þá yfir Suðurstrandaveg ef það heldur áfram í þessum gír sem það er núna,“ sagði Þorvaldur.
Hefurðu miklar áhyggjur af því?
„Í sjálfu sér ekki. Það er alltaf vont að missa veg og þetta er mikilvæg samgönguleið og öryggisleið fyrir bæjarfélögin úti á Reykjanesi. Ef hann fer þá þurfum við bara að bíða eftir að hraunið hætti að flæða og þá getum við sett hann inn aftur, það fer náttúrulega ekki nema smá hluti af honum.“