Fótbolti

Íslendingaliðin komust áfram í ítalska bikarnum - Arnór skoraði fyrir Venezia

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arnór Sig skoraði í vítaspyrnukeppni.
Arnór Sig skoraði í vítaspyrnukeppni. VÍSIR/VILHELM

Íslendingaliðin Lecce og Venezia komust áfram í ítölsku bikarkeppninni í kvöld.

Lecce tryggði sig áfram með öruggum 1-3 sigri á Parma sem féll úr ítölsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Parma komst yfir eftir sjö mínútna leik en Lecce jafnaði nokkrum sekúndum síðar; náði forystunni eftir 40 mínútna leik og gulltryggði svo sigurinn með marki á 76.mínútu.

Þórir Jóhann Helgason lék fyrsta klukkutímann í liði Lecce en Brynjar Ingi Bjarnason sat allan tímann á varamannabekknum.

Úrvalsdeildarlið Venezia er með fjöldann allan af Íslendingum innan sinna raða og tveir þeirra voru í leikmannahópnum gegn Frosinone. 

Bjarki Steinn Bjarkason sat allan tímann á varamannabekknum en Arnór Sigurðsson kom inn af bekknum á 55.mínútu.

Staðan eftir venjulegan leiktíma 0-0. Framlengingin fór 1-1 og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar fór Arnór fyrstur á punktinn og skoraði. Fór að lokum svo að Venezia sigraði vítakeppnina 8-7 og er komið áfram í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×