Fótbolti

2 dagar í EM: Danir þurftu bara tvo sigur­leiki til að vinna EM í „sumar­fríinu“ sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danir fagna marki Kim Vilfort í úrslitaleiknum en hann kom þeim þá í 2-0. Brian Laudrup trúir því varla að danska liðið sé að verða Evrópumeistari.
Danir fagna marki Kim Vilfort í úrslitaleiknum en hann kom þeim þá í 2-0. Brian Laudrup trúir því varla að danska liðið sé að verða Evrópumeistari. Getty/Shaun Botterill

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Evrópumeistaratitil Dana frá 1992 er einn sá óvæntasti í sögunni enda átti danska landsliðið aldrei að vera með.

Danir voru ekki í pottinum þegar dregið var í riðli í úrslitakeppni EM í Svíþjóð 1992. Danska landsliðið varð að sætta sig við annað sætið í sínum riðli í undankeppninni eftir harða baráttu við Júgóslavíu. Júgóslavía átti því að vera í hópi þeirra átta þjóða sem myndu spila á EM 1992.

Júgóslavía missti hins vegar sæti sitt vegna borgarastyrjaldar í landinu þegar FIFA og UEFA gáfu það út 31. maí að þeir mættu ekki taka þátt í EM sem hófst aðeins tíu dögum seinna. Danir voru því óvænt komnir inn á EM og þó þeir væru ekki komnir í sumarfrí þá voru allir leikmenn liðsins á leið í sumarfrí og þurftu því að breyta sumarplönum sínum snögglega.

Það voru reyndar ekki allir Danir til í slíkt. Michael Laudrup, besti leikmaður Dana og nýkrýndur Evrópumeistari meistaraliða með Barcelona, gaf ekki kost á sér og missti um leið af einu mesta ævintýri knattspyrnusögunnar. Bróðir hans Brian Laupdrup steig út úr skugga bróður síns og sló í gegn með félögum sínum.

Danir skoruðu reyndar ekki í fyrstu tveimur leikjum sínum í keppninni, gerðu markalaust jafntefli við England í fyrsta leik og töpuðu svo 1-0 á móti gestgjöfum Svía. Ekkert nema sigur dugðu Dönum í lokaleiknum á móti Frökkum.

Danir unnu Frakka 2-1 og komust í undanúrslit á kostnað Frakka og Englendinga. Varamaðurinn Lars Elstrup skoraði sigurmarkið tólf mínútum fyrir leikslok.

Í undanúrslitum unnu Danir svo Hollendinga í vítakeppni eftir 2-2 jafntefli í framlengdum leik. Peter Schmeichel varði víti frá Marco van Basten og dönsku leikmennirnir skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum.

Í úrslitaleiknum vann danska liðið síðan 2-0 sigur á heimsmeisturum Þjóðverjar. Mörkin í úrslitaleiknum komu úr óvæntri átt en þau skoruðu John Jensen og Kim Vilfort.

Þetta var fyrsta landsliðsmark Jensen í fimm ár og 45 landsleikjum en Vilfort hafði yfirgefið danska hópinn um tíma því sjö dóttir hans var með hvítblæði. Fjölskylda Vilfort sendi hann aftur til móts við danska liðið en Line Vilfort lést skömmu eftir keppnina.

Besti maður Dana á mótinu var þó án ef markvörðurinn Peter Schmeichel sem varði margoft á úrslitastundu í keppninni. Frammistaða hans á mótinu er ein af þeim bestu í sögu keppninnar.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×