Fótbolti

6 dagar í EM: Þjóðverjar eina þjóðin í undanúrslitum þriggja síðustu EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller var með þýska landsliðinu í síðustu tveimur undanúrslitaleikjum á EM og er komið aftur inn í landsliðið fyrir Evrópumótið í sumar.
Thomas Müller var með þýska landsliðinu í síðustu tveimur undanúrslitaleikjum á EM og er komið aftur inn í landsliðið fyrir Evrópumótið í sumar. EPA/PETER POWELL

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Þýska landsliðið hefur komist alla leið í undanúrslit á síðustu þremur Evrópumótum en hafa ekki unnið Evrópumeistaratitilinn á þessari öld.

Það er bara ein þjóð sem á möguleika að komast í undanúrslit á fjórða Evrópumótinu í röð og það er Þýskaland. Þjóðverjar hafa tapað undanúrslitaleiknum á síðustu tveimur mótum og fóru síðan alla leið í úrslitaleikinn á EM 2008.

Þjóðverjar hafa því verið að komast langt á síðustu Evrópumótum en þeir hafa ekki farið alla leið síðan á EM í Englandi 1996 eða fyrir aldarfjórðungi síðan. Það mætti því halda að þýska þjóðin sé farin að lengja í Evrópugull.

Þýskalandi tapaði 2-1 fyrir Ítölum í undanúrslitaleiknum 2012 þar sem Mario Balotelli skoraði tvívegis fyrir Ítala í fyrri hálfleiknum. Í síðustu keppni tapaði þýska landsliðið síðan 2-0 fyrir gestgjöfum Frakka þar sem Antoine Griezmann skoraði fyrri markið úr vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks og bætti svo við öðru marki í þeim síðari.

Á EM 2008 unnu Þjóðverjar 3-2 sigur á Tyrkjum í undanúrslitaleiknum þar sem Philipp Lahm skoraði sigurmarkið á 90. mínútu en þýska liðið varð síðan að sætta sig við 1-0 tap á móti Spáni í úrslitaleiknum. Fernando Torres skorað eina mark leiksins á 33. mínútu.

Það þarf því að fara alla götur aftur til sumarsins 2004 til að finna Evrópumót þar sem þýska landsliðið var ekki í undanúrslitum. Þjóðverjar komust reyndar ekki upp úr riðlinum á því móti þar sem liðið vann ekki leik og gerði tvö jafntefli. Tékkar og Hollendingar fóru áfram en eina tap Þjóðverjar kom í lokaleiknum á móti Tékkum þar sem sigur hefði fært þýska liðinu sæti í átta liða úrslitunum.

Þjóðverjar eru að þessu sinni í riðli með heimsmeisturum Frakka, Evrópumeisturum Portúgala og Íslandsbönunum í Ungverjalandi. Það verður því ekki auðvelt verkefni að komast áfram í átta liða úrslitin.

Þjóðir í undanúrslitum síðustu þriggja Evrópumóta 2008-2016:

  • Þýskaland 3 sinnum
  • Spánn 2 sinnum
  • Portúgal 2 sinnum
  • Frakkland 1 sinni
  • Ítalía 1 sinni
  • Tyrkland 1 sinni
  • Wales 1 sinni
  • Rússland 1 sinni

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×