Að sögn Guðrúnar og Kolbrúnar Hörpu Kristinsdóttur, samskipta- og markaðsfulltrúa hjá FranklinCovey veita niðurstöðurnar nýja sýn á forgangsröðun stjórnenda. Velferð starfsfólks virðist vera að leiðarljósi hjá bæði einkageiranum og hinum opinbera. „Þessar niðurstöður eru að miklu leyti í takti við umræðuna, þá sérstaklega vegna tengsla vellíðan starfsmanna og frammistöðu vinnustaða,“ segir Kolbrún.
Í dag fjallar Atvinnulífið um niðurstöður rannsóknar FranklinCovey meðal vinnustaða. Rannsóknin fór fram í mars 2021. Svarendur voru 142 talsins í stöðugildum stjórnenda, millistjórnenda og framlínustjórnenda vinnustaða í opinbera- og einkageiranum.
Markmið rannsóknarinnar var að meta hvernig áskoranir og áherslur eru tengdar starfsþróun árið 2021. Þá var lögð áhersla á það að meta stefnumarkandi áskoranir í komandi endurreisn, þar með talið hvernig vinnustaðir ætla að efla þekkingu starfsfólks og hvernig kórónuveiran hefur haft áhrif á þjálfun og starfsmannaþróun.
Helstu áskoranir í kjölfar Covid
Á meðfylgjandi mynd má sjá þær tíu áskoranir sem stjórnendur segja algengustu áskoranir vinnustaða.
Þær áskoranir sem virðast vera algengastar felast í að auka ánægju starfsfólks og bæta þjónustu en yfir 90% stjórnenda greindu frá þessu.
Alls fengu svarendur sautján valmöguleika til að haka við og leyfilegt var að velja fleiri en einn möguleika. Þátttakendur gátu einnig bætt við áskorunum með opnum svarmöguleika.
Samanburður: Einkageirinn og hið opinbera
Þegar spurt var um helstu stefnumarkandi áskoranir, má sjá að nokkur munur er á svörum einkageirans annars vegar og hinu opinbera hins vegar.
Á meðfylgjandi mynd má til dæmis sjá að stjórnendur í einkageiranum leggja meiri áherslu á að auka framleiðni og skila betri rekstrarniðurstöðum, í samanburði við stjórnendur hjá hinu opinbera.
Að auka ánægju starfsfólks er hins vegar það atriði sem allir stjórnendur, eða 100% svarenda í þeim hópi, sögðu vera stærstu stefnumarkandi áskorunina framundan. Þetta segja Guðrún og Kolbrún ríma við nýjar reglur um styttingu vinnuvikunnar sem tóku gildi þann 1.maí síðastliðinn og aukna umræðu um kulnun.
Þjálfun í kjölfar Covid
„Það sem kom mér ekki á óvart var stökkbreyting íslenskra vinnustaða í stafræna þjálfun á tímum heimsfaraldursins,“ segir Guðrún en meðal niðurstaðna í rannsókninni mátti sjá að mun stærri hluti þjálfunar starfsfólks fer fram rafrænt í dag, í samanburði við fyrir heimsfaraldur. ,,„Við höfum þjónað árangri íslenskra og erlendra vinnustaða með Live-Online vinnustofum með stafrænum aðgangi að verðlaunaefni okkar í kjölfarið og gaman var að sjá góðar undirtektir íslenskra vinnustaða síðastliðna sextán mánuði. Nýir tímar kalla á nýja hugsun.“
Það sem stjórnendur segja hins vegar vera helstu hindrunina í dag við að auka þjálfun starfsfólks er skortur á tíma.
„Jákvætt var þó að mótstaða við breytingum og virði þess að fjárfesta í þjálfun skoruðu lágt, sem bendir til þess að stjórnendur átti sig á virði þess að þjálfa starfsfólk. Þar sem skortur á tíma og skortur á fjármagni var að skora hæst sem bendir til að forgangsraða þurfi þjálfun til að njóta góðs af,“ segir Kolbrún.
Lærdómur og starfsþróun 2021
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig lærdóms- og starfsmannaþróunarmarkmið á komandi ári eru í samræmi við áskoranir. Þar trónir á toppnum markmið um að auka á nægju starfsfólks.
Guðrún segir þessar niðurstöður einkar ánægjulegar.
„Tíma varið í fræðslu og þróun birtist í lykilárangursbreytum svo sem nýsköpun, ánægju viðskiptavina, trausti, framleiðni, fjárhagslegri frammistöðu, starfsánægju, þjónustu, markaðshlutdeild, starfsmannaveltu og mikilvægast af öllu: vinnustaðamenningu,“ segir Guðrún og bætir við: „Þessar niðurstöður styðja við reynslu okkar í vinnu með viðskiptavinum hér heima og erlendis um að fjárfesting í nýrri þekkingu einstaklinga, teyma og vinnustaða skapar verðmæti fyrir alla hagaðila og er hverrar mínútu virði.“