Fótbolti

Van Dijk gefur EM upp á bátinn

Sindri Sverrisson skrifar
Virgil van Dijk á æfingu á AXA æfingasvæði Liverpool í dag.
Virgil van Dijk á æfingu á AXA æfingasvæði Liverpool í dag. Getty/Andrew Powell

Hollenska landsliðið þarf að spjara sig án miðvarðarins Virgils van Dijk á Evrópumótinu í fótbolta sem hefst í næsta mánuði.

Van Dijk hefur misst af nánast öllu tímabilinu með Liverpool eftir að hafa slitið krossband í hné við tæklingu markvarðarins Jordans Pickford, í leik Liverpool og Everton í október.

Hann er langt kominn í endurhæfingu sinni en hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann verði að sleppa EM en huga frekar að næstu leiktíð með Liverpool.

„Á þessu lokastigi hef ég þurft að glíma við ákvörðun um hvort ég yrði með á EM eða ekki. Miðað við allt sem hefur gengið á þá held ég að fyrir líkamann minn sé það rétt ákvörðun hjá mér að fara ekki á EM heldur klára síðasta hluta endurhæfingarinnar í sumarfríinu. Ég einbeiti mér því að undirbúningstímabilinu með mínu félagi og það er raunhæft markmið sem ég hlakka til,“ sagði Van Dijk á heimasíðu Liverpool.

„Auðvitað er ég miður mín yfir því að missa af EM og að leiða mína þjóð áfram þar en ég verð að sætta mig við það sem hefur gengið á – við verðum öll að sætta okkur við það. Ég tel að það sé rétt ákvörðun í stóra samhenginu að fara ekki á mótið. Þetta er erfitt en ég hef sætt mig við þetta,“ sagði Van Dijk.

Holland leikur í C-riðli á EM og byrjar á að mæta Úkraínu 13. júní. Í riðlinum eru einnig Austurríki og Norður-Makedónía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×