Fótbolti

Dómaraparið gekk í það heilaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sennilega hafa engin hjón jafn góða þekkingu á knattspyrnureglunum og Bibiana Steinhaus og Howard Webb.
Sennilega hafa engin hjón jafn góða þekkingu á knattspyrnureglunum og Bibiana Steinhaus og Howard Webb. epa/RONALD WITTEK/MATTEO BAZZI

Bibiana Steinhaus og Howard Webb, tveir af fremstu fótboltadómurum allra tíma, giftu sig í síðasta mánuði.

Steinhaus og Webb hafa verið saman í fimm ár. Það var kannski við hæfi að þau kynntust á dómararáðstefnu í Róm.

„Við erum ótrúlega hamingjusöm,“ sagði hin þýska Steinhaus við Sport 1 í heimalandinu. Vegna kórónuveirufaraldursins voru engir gestir í brúðkaupinu.

Steinhaus lagði flautuna á hilluna í fyrra eftir að hafa dæmt leik Bayern München og Borussia Dortmund í þýska ofurbikarnum. Hún starfar þó enn sem myndbandsdómari. 

Steinhaus varð fyrsta konan til að dæma leik í einni af fimm sterkustu karladeildum Evrópu þegar hún dæmdi leik Herthu Berlin og Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni 2017. 

Webb var einn þekktasti dómari heims á sínum tíma. Árið 2010 var hápunktur ferils Englendingsins en þá dæmdi hann bæði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og HM. Ári seinna dæmdi Steinhaus einnig úrslitaleik HM.

Auk þess að dæma störfuðu Webb og Steinhaus einnig bæði sem lögregluþjónar á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×