Körfubolti

Dagný Lísa og kúrekastelpurnar mæta UCLA í fyrstu umferð Marsæðisins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Lísa Davíðsdóttir fagnar farseðlinum í úrslitakeppni NCAA með félögum sínum. Dagný heldur hér á miðanum.
Dagný Lísa Davíðsdóttir fagnar farseðlinum í úrslitakeppni NCAA með félögum sínum. Dagný heldur hér á miðanum. Twitter/@wyo_wbb

Íslenska körfuboltakonan Dagný Lísa Davíðsdóttir og félagar hennar í Wyoming háskólaliðnu fengu í gær að vita hver verður mótherji liðsins í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans.

Dagný Lísa er fulltrúi Íslands í Marsæðinu í ár en Wyoming Cowgirls komust í 64 liða úrslitin með því að vinna Mountain West deildina.

Í nótt var raðað upp leikjum í úrslitakeppnina og fengu Wyoming kúrekastelpurnar fjórtánda sætið í Hemisfair hlutanum. Þar mæta þær liðinu í þriðja sæti sem er UCLA eða University of California í Los Angeles.

Dagný Lísa hefur verið í byrjunarliðinu í öllum 23 leikjum Wyoming á leiktíðinni en hún er með 9,1 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í leik.

UCLA liðið hefur unnið 16 af 21 leik sínum á tímabilinu en Wyoming hefur unnið 14 af 23 leikjum sínum.

Leikurinn á milli Wyoming og UCLA fer fram mánudaginn 22. mars næstkomandi en hann verður spilaður í Frank Erwin íþróttahúsinu hjá University of Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×