Körfubolti

Martin stoð­sendinga­hæstur í stór­sigri Valencia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin var duglegur að finna samherja sína í kvöld en hann gaf sjö stoðsindingar í leik kvöldsins. Enginn leikmaður vallarins gaf fleiri.
Martin var duglegur að finna samherja sína í kvöld en hann gaf sjö stoðsindingar í leik kvöldsins. Enginn leikmaður vallarins gaf fleiri. Pedro Salado/Getty Images

Valencia gjörsigraði Manresa í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld, lokatölur 112-82. Þá lék Sigtryggur Arnar Björnsson vel með Real Canoe í spænsku B-deildinni.

Þrátt fyrir ótrúlegar lokatölur í leik Valencia þá var liðið aðeins stigi yfir í hálfleik, staðan þá 54-53. Hvað fór fram í síðari hálfleik er hulin ráðgáta en sóknarleikur gestanna hrundi einfaldlega á meðan Valencia skoraði 29 stig í báðum leikhlutum síðari hálfleiks líkt og það hafði gert í öðrum leikhluta leiksins.

Lokatölur því eins og áður sagði 112-82 Valencia í vil. Martin skoraði 12 stig á þeim 23 mínútum sem hann spilaði í kvöld. Hann átti einnig sjö stoðsendingar ásamt því að taka eitt frákast.

Valencia er nú í 5. sæti úrvalsdeildarinnar með 34 stig, aðeins fjórum stigum á eftir Barcelona og Baskonia sem eru í 2. og 3. sæti deildarinnar. Real Madrid er sem fyrr á toppnum með 44 stig.

Í B-deildinni á Spáni vann Real Canoe loks leik en liðið lagði Alicante í framlengdum leik, lokatölur 79-75. Sigtryggur Arnar skoraði 13 stig, tók tvö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Real Canoe er á botni B-deildarinnar með aðeins tvo sigra í 16 leikjum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×