Alþjóðlegar efnahagshorfur fyrir fyrsta og annan ársfjórðung þessa árs eru verri en áður var spáð og ræður aukin útbreiðsla kórónuveirunnar í Evrópu mestu þar um, að mati Seðlabankans. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir þessa þróun hafa áhrif hér á landi.
Hvað er það helsta sem skýrir versnandi efnahagshorfur?
„Það er náttúrlega að við erum að sjá að þessi farsótt stendur lengur yfir. Það er lengri tími þar til við munum fá ferðaþjónustuna aftur af stað. Á sama tíma eru það kannski jákvæðar fréttir að það hefur gengið betur að örva innlenda eftirspurn en við höfðum gert ráð fyrir,“ segir Ásgeir.
Á þessu ári séu einnig horfur á að innlend eftirspurn vaxi meira en áður var spáð en á móti vegi lakari útflutningshorfur í ár, sérstaklega á sjávarfangi. Ásgeir segir aðgerðir Seðlabankans hafa virkað og lækkun vaxta skilað sér til heimilanna og að nokkru leyti til fyrirtækjanna.

Lántaka ríkissjóðs í útlöndum upp á 750 milljónir evra í síðustu viku styðji við fyrri aðgerðir og möguleika á að halda efnahagslegum stöðugleika.
„Það er að einhverju leyti svipuð áhrif eins og peningaprentun. Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkissjóðs. Við tökum þennan erlenda gjaldeyri sem kemur og afhendum ríkinu krónur. Ef þær eru settar inn í kerfið kemur það með sama hætti eins og þegar verið er að prenta peninga,“ segir Seðlabankastjóri.
Verðbólga síðustu tólf mánuði mælist nú 4,3 prósent sem er meiri verðnólga en Seðlabankinn reiknaði með og sú mesta frá árinu 2013. Ásgeir segir þetta viss vonbrigði.
„Við gerum ráð fyrir því núna að við höfum náð tökum á krónunni og það er mikið atvinnuleysi þannig að við sjáum ekki fyrir okkur að þessi verðbólga haldi áfram. Hún verði eitthvað fóðruð áfram. Hún gangi hratt niður.“
Hvenær haldið þið að hún verði komin að markmiðum Seðlabankans (2,5%)?
„Við höldum að þaðgerist í sumar eða eitthvaðálíka. Hún muni þegar byrja að ganga niður á næstu mánuðum,“segir Ásgeir Jónsson.