Fótbolti

Segir Davíð Snorra stýra U21-liðinu á EM: „Mun gera þetta frábærlega“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu A-landsliði Íslands á Laugardalsvelli í haust vegna þess að Erik Hamrén og Freyr Alexandersson voru í sóttkví.
Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu A-landsliði Íslands á Laugardalsvelli í haust vegna þess að Erik Hamrén og Freyr Alexandersson voru í sóttkví. vísir/vilhelm

Davíð Snorri Jónasson mun stýra U21-landsliði karla í fótbolta á öðru lokamótinu í sögu þess í lok mars, ef allt gengur að óskum.

Þetta kom fram í viðtali við Arnar Þór Viðarsson, yfirmann knattspyrnumála hjá KSÍ síðustu ár og nýráðinn A-landsliðsþjálfara, í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag. Arnar stýrði U21-landsliðinu með Eið Smára Guðjohnsen sér til aðstoðar, í undankeppni EM.

Lokamót EM U21 landsliða hefst undir lok mars en þá verða þeir Arnar og Eiður uppteknir í undankeppni HM með A-landsliðinu.

Davíð Snorri, sem stýrt hefur U19 landsliði karla, mun væntanlega taka við U21-landsliðinu.

„Það er ætlunin að ráða Davíð Snorra þar inn. Það er verið að reyna að klára það núna. Ég er alveg pottþéttur á því að Davíð Snorri mun gera þetta frábærlega. Sama með strákana. Leikmennirnir hafa unnið fyrir þessu, þó að þjálfararnir fái að fylgja með,“ sagði Arnar í Dr. Football.

Hann tók undir að vissulega væri fúlt að geta ekki fylgt U21-landsliðinu á lokamótið í mars:

„Jú, það er hundleiðinlegt. Það er ekkert leyndarmál. En eins og þessi púsluspil féllu öll síðustu 3-4 mánuði á síðasta ári þá fór þetta svona. Ég hef aldrei farið leynt með það að ef þér er boðið að vera A-landsliðsþjálfari þá er það mikill heiður og stærsta starfið sem þú getur fengið á Íslandi. Jú, ég þurfti að skilja U21-liðið eftir, ég get ekki tekið það líka, og það er hundleiðinlegt,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×