Fótbolti

Miklar breytingar á leikjadagatali íslenska kvennalandsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í undankeppni EM.
Ísland er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í undankeppni EM. vísir/bára

Leikjum íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í undankeppni EM sem áttu að fara fram í næsta mánuði hefur verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta var ákveðið á fundi Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, í dag.

Ísland átti að mæta Ungverjalandi í Búdapest 10. apríl og Slóvakíu í Myjava fjórum dögum síðar. Ekki hefur enn verið gefið út hvenær þessir leikir munu fara fram.

Evrópumót kvenna á að fara fram í Englandi sumarið 2021. Líklegt þykir að mótið verði fært fram á sumarið 2022 þar sem EM karla verður nú 2021. UEFA hefur þó ekki enn staðfest hvenær EM kvenna verður.

Ísland á eftir að leika fimm leiki í undankeppni EM, gegn Ungverjalandi og Slóvakíu á útivelli, Lettlandi á heimavelli og Svíþjóð heima og úti.

Íslenska liðið er með níu stig eftir þrjá leiki í 2. sæti F-riðils. Svíþjóð er einnig með níu stig en betri markatölu en Íslendingar.

Efsta lið hvers riðils í undankeppninni kemst beint á EM sem og þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna. Hin sex liðin fara í umspil um þrjú laus sæti á EM.

Ísland hefur komist á síðustu þrjú Evrópumót (2009, 2013 og 2017).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×