Viðskipti innlent

510 milljóna gjaldþrot Hópferðabifreiða Akureyrar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rútufyrirtækið sinnti akstri á Norðurlandi í rúman áratug.
Rútufyrirtækið sinnti akstri á Norðurlandi í rúman áratug. Vísir/Tryggvi Páll

Skiptum á þrotabúi Hópferðabifreiða Akureyrar er lokið en fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota í maí í fyrra. Lýstar kröfur í þrotabúið námu samanlagt 510 milljónum króna og fengust greiddar um 26 milljónir.

Fyrirtækið var stofnað í desember 2008. Það sá um akstur á leiðum 78, 79 og 56 fyrir Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum frá árinu 2013.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu að lýstar búskröfur hafi numið 7,6 milljónum króna en 5,6 milljónir króna voru samþykktar og greiddust að fullu. Lýstar veðkröfur námu 129 milljónum, 120 voru samþykktar og fékkst 3,1 milljón greidd upp í þær.

Lýstar forgangskröfur námu 56 milljónum króna og voru tæplega 30 milljónir samþykktar. Greiddust upp í þær tæplega 17 milljónir króna. Að lokum fékkst ekkert greitt upp í almennar kröfur sem námu 317 milljónum króna.

Markaðurinn greindi frá því í fyrra að samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2017 hefði veltan numið tæplega hálfum milljarði og voru stöðugildin 28. Skilaði félagið þá tapi upp á 12 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×