Skoðun

Sæll, Ármann

Auður Ósk Hallmundsdóttir skrifar

Bréf sent á Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra Kópavogs.

Sæll Ármann,

Takk fyrir bréfið, það var fallegt. Auður Ósk Hallmundsdóttir heiti ég. Ég vinn á Leikskólanum Kópasteini og hef gert síðastliðin 7 ár sem leiðbeinandi á leikskóla. Ég tók að mér deildarstjórn á deild fyrir börn 2-3 ára fyrir nokkrum árum. Vinnan mín er bæði skemmtileg og innihaldsrík. Leikskólinn er ekki bara vinnustaður heldur staður þar sem mér líður vel og ég er umkringd fólki sem sýnir börnum og öðru starfsfólki bæði kærleik og hlýju.

Á sama tíma og þú sendir þetta fallega þakkarbréf til okkar sá ég grein í fjölmiðli sem sýndi hæstu og lægstu laun á Ísland. Þar kemur einmitt fram að áberandi lægstu launin eru fyrir störf í barnagæslu með um 398 þúsund á mánuði. Það er jafnframt lægst launaða starfsstétt landsins. Sem leiðbeinandi á leikskóla vitandi alla þá ábyrgð og miklu vinnu sem felst í því að vinna þessa vinnu og vera á lægstu launum á Íslandi er sorglegt, mjög sorglegt.

Þessar frábæru konur sem vinna sem leiðbeinendur á leikskólanum eru margar búnar að gera það í mörg mörg ár. Það er ekki vegna þess að það sé auðvelt, eða bara yfir höfuð hægt að lifa af laununum. En þær velja þetta starf vegna þess að það er göfug og skemmtileg vinna að hugsa um börnin okkar af alúð og virðingu.

Við skrifuðum nýlega undir nýjan kjarasamning og þar var einmitt að finna nýjungar eins og styttingu vinnuvikunnar. Frábær hugmynd, en þegar þetta má ekki kosta neitt fyrir bæinn né má skerða þjónustu við börnin, þá segir það sig sjálft að hlutirnir koma ekki heim og saman. Þetta endar í því að við þurfum að hlaupa hraðar og á endanum bitnar þetta á börnunum.

Þó að vinnustaðurinn og vinnan á Kópasteini sé mér kær, þá þarf maður víst að geta lifað af laununum sínum. Maður kemst ekki langt á þakklætinu nefnilega.

Ég sem einstæð, mjög sjálfstæð kona, móðir 9 ára gamals drengs, þarf víst að fæða og klæða þennan dreng og ég geri það ekki á þakklætinu.

En ég þakka þér enn og aftur fyrir vel orðað bréf.

Kveðja Auður Ósk.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×