Skoðun

Öryggið í heims­far­aldri

Sonja Björg Írisar Jóhannsdóttir skrifar

Ég held að flest öll séu farin að finna vel fyrir þreytu er varðar reglur og samkomubann vegna kórónuveirunnar. Mörg eru búin að missa vinnuna og sjá ekki hvenær möguleiki er að fá aftur vinnu. Við söknum þess að halda matarboð, kíkja með vinkonum og vinum á „happy- hour“, fara til útlanda og knúsa ömmu og afa. Þetta ástand er orðið þreytt.

Ímyndið ykkur núna að vera atvinnulaus með tvö börn á framfæri, í íslenska skammdeginu með tilheyrandi lægðum að reyna að halda í jákvæðnina. Börnin fá að mæta í skólann og mæta glöð heim eftir góðan dag. Pottréttur mallar á eldavélinni og það er kveikt á kerti á eldhúsborðinu.

En innra með þér er hræðsla. Svo ótrúlega mikil hræðsla því stjórnvöld vilja vísa þér úr landi. Úr landi sem þú ert búin að gera þér heimili og búa í næstum sjö ár. Í landi þar sem börnin þín fæddust og þekkja ekkert annað. Þar sem vinir þínir og vinir barnanna þinna eru. Þar sem öryggið er - það sem er heima.

Í heimsfaraldri er hægt að missa þróttinn og vera þreytt. En það er öryggi í því að eiga heimili. Það er öryggi í því að börnin fái að mæta í skólann. Það er öryggi í því að stjórnvöld séu að gera allt sem þau geta til að ná niður smitum í samfélaginu. Það er öryggi að vera heima.

Því miður er ekki öryggi fyrir öll að vera heima hjá sér en það er öryggi fyrir Mahe, Bassirou og dætur þeirra tvær sem á nú að senda úr landi. Senda þau burt til lands sem þau hræðast að búa í og telja að öryggi dætra sinna sé ógnað. Við getum ekki gefið þeim Covid-lausan heim eða að öllum sé tryggð atvinna. En við getum gefið þeim öryggi. Öryggið að fá dvalarleyfi og búa á Íslandi.

Nú hafa rúmlega 20.000 manns skrifað undir áskorun þess efnis að fjölskyldan fái dvalarleyfi hér á Íslandi.

Ég skora á Áslaugu Örnu að taka mál þeirra til skoðunar sem fyrst, hlusta á raddir rúmlega 20.000 manns og veita fjölskyldunni það öryggi sem öll eiga skilið.

Höfundur er í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna.




Skoðun

Sjá meira


×