Fótbolti

Valencia og Eibar með mikilvæga sigra

Ísak Hallmundarson skrifar
Parejo skoraði fyrir Valencia í dag
Parejo skoraði fyrir Valencia í dag vísir/getty

Valencia vann mikilvægan 2-1 sigur á Real Betis í dag, en liðið er í bullandi evrópubaráttu. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Kevin Gameiro Valencia yfir á 60. mínútu leiksins. Daniel Parejo bætti við öðru marki fyrir Valencia á 89. mínútu áður en Loren Moron skoraði sárabótamark fyrir Betis í uppbótartíma. Lokatölur 2-1 og er lið Valencia komið með 41 stig og situr í 7. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar. 

Mikil spenna ríkir í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni en Real Sociedad, Atletico Madrid og Sevilla eru öll með 43 stig í 3. - 5. sæti deildarinnar og Getafe er með 42 stig í 6. sæti. Það munar því aðeins tveimur stigum á þriðja sætinu og Valencia sem er í 7. sæti.

Eibar vann þægilegan sigur á Levante þar sem Brasilíumaðurinn Charles skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og Fabian Orellana bætti við þriðja marki Eibar undir lok leiks, lokatölur 3-0. Eibar lyfti sér upp í 16. sæti með sigrinum og er búið að safna 27 stigum á tímabilinu, fimm stigum meira en Mallorca sem er í fallsæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×