Skoðun

Treystum þeim sem best vita

Magnús Karl Magnússon skrifar

Ágætu internet-veirufræðingar:

Samfélag okkar stendur frammi fyrir flóknu og vandasömu verkefni. Samstaða, fagmennska, æðruleysi, kjarkur og dómgreind eru dæmi um eiginleika sem munu koma okkur gegnum þetta tímabundna en erfiða ástand. Yfirvöld munu þurfa að taka ákvarðanir sem eru flóknar, það er að segja ákvarðanir þar sem ekki er beinlínis til eitt augljóst svar. Við munum eðli málsins samkvæmt ekki vita hvort ákvörðunin sé rétt á þeim tímapunkti sem hún er tekin.

Ég vil því biðja þá sem alltaf vita hvert er rétta svarið eða eru alltaf tilbúnir til að krítísera allar ákvarðanir að staldra við eitt augnablik. Dunning-Kruger áhrifin eiga svo sannarlega við núna, en Dunning-Krueger er hugsanavillan sem á við þegar þeir sem minnst vita, telja sig best vita (sjá meðfylgjandi mynd).

Mér sýnast heilbrigðisyfirvöld hafa sýnt góða dómgreind. Ég veit að þar höfum við geysilega gott fagfólk í broddi fylkingar. Ég veit líka að þar eru einstaklingar sem liggja talsvert langt til hægri á kúrfunni á meðfylgjandi mynd.

Munum að rétt eins veirur sem smitast frá einum einstaklingi til annars, þá gera hugmyndir það líka. Við megum ekki við því að blanda saman hættulegum veirum við illa ígrundaðar hugmyndir frá fólki sem alltaf þykist best vita. Sýnum frekar okkur bestu hliðar.

Höfundur er prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×