Fótbolti

Gunnhildur Yrsa tryggði Íslandi sigur á Úkraínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tíunda landsliðsmark Gunnhildar Yrsu tryggði Íslandi sigur á Úkraínu.
Tíunda landsliðsmark Gunnhildar Yrsu tryggði Íslandi sigur á Úkraínu. vísir/vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta sigraði Úkraínu, 1-0, í lokaleik sínum á Pinatar-mótinu á Spáni í dag. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði eina mark leiksins.

Ísland vann tvo leiki á mótinu og tapaði einum. Allir leikirnir enduðu 1-0.

Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá 1-0 tapinu fyrir Skotum. Agla María Albertsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir komu inn í byrjunarliðið í stað Rakelar Hönnudóttur, Natöshu Anasi og Sigríðar Láru Garðarsdóttur.

Eina mark leiksins kom á 34. mínútu. Gunnhildur Yrsa tæklaði boltann þá í netið af stuttu færi og skoraði sitt tíunda landsliðsmark.

Jón Þór gerði þrjár skiptingar í hálfleik. Anna Rakel Pétursdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir og Elísa Viðarsdóttir komu inn á í stað Gunnhildar Yrsu, Elínar Mettu Jensen og Ingibjargar Sigurðardóttur.

Eftir klukkutíma komu Sandra María Jessen og Hlín Eiríksdóttir inn á fyrir Fanndísi og Öglu Maríu og þegar sex mínútur voru til leiksloka kom Hildur Antonsdóttir inn á fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Ísland fagnaði sigri. Íslendingar hafa unnið fjóra af sjö leikjum sínum gegn Úkraínumönnum.

Næstu leikir Íslands eru gegn Ungverjalandi og Slóvakíu í undankeppni EM í næsta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×