Fótbolti

Rio vill sjá Man. United opna veskið og láta Sancho fá sjöuna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rio hefur getið sér gott orð sem spekingur hjá BT Sport eftir að skórnir fóru upp í hillu.
Rio hefur getið sér gott orð sem spekingur hjá BT Sport eftir að skórnir fóru upp í hillu. vísir/getty

Rio Ferdinand, sem varð sex sinnum Englandsmeistari með Manchester United, vill að félagið opni veskið duglega í sumar og kaupi þrjá afar sterka leikmenn til félagsins.

Vonir stóðu til að United myndi fara mikinn á markaðnum í sumar en svo skall kórónuveiran á. Þó er talið að fjárhagsstaða United sé ansi sterk og þeir geti enn verslað leikmenn í sumar og hjálpað Ole Gunnar Solskjær að byggja upp nýtt lið.

Rio var gestur í hlaðvarpi Robbie Savage á BBC Radio 5 þar sem hann var spurður hvaða leikmenn hann vill sjá koma til Rauðu Djöflanna í sumar.

„Sancho, Koulibaly og Saul Niguez,“ sagði Ferdinand og var ekki lengi að hugsa sig um. „Ég hef einnig heyrt af sögusögnum um Harry Kane en ef ég er að sækjast eftir framherja myndi ég taka Sancho. Hann gefur þér hugmyndaflug og þetta krydd sem er ekki í liðinu í augnablikinu.“

„Ég myndi gefa Sancho sjöuna. Hann er þannig karakter. Hann er smá hrokafullur og það er það sem þú vilt inni á fótboltavellinum svo ég myndi láta hann fá sjöuna og setja pressuna á hann.“

Sancho spilar hjá Dortmund og hefur verið mikið orðaður burt frá félaginu og sömu sögu má segja af Kalidou Koulibaly hjá Napoli. Saul Niguez er samningsbundinn Atletico Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×