Enski boltinn

Í­huga að reka Glasner eftir reiðikastið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Parish (til hægri), stjórnarformanni Crystal Palace, var brugðið vegna ummæla knattspyrnustjórans Olivers Glasners (til vinstri) eftir tapið fyrir Sunderland í gær og íhugar hvort hann eigi að segja Austurríkismanninum upp störfum.
Steve Parish (til hægri), stjórnarformanni Crystal Palace, var brugðið vegna ummæla knattspyrnustjórans Olivers Glasners (til vinstri) eftir tapið fyrir Sunderland í gær og íhugar hvort hann eigi að segja Austurríkismanninum upp störfum. getty/MI News

Stjórnarformaður Crystal Palace, Steve Parish, var undrandi og reiður vegna ummæla knattspyrnustjóra liðsins, Olivers Glasner, í viðtali eftir leikinn gegn Sunderland í gær og íhugar að reka hann.

Palace tapaði fyrir Sunderland, 2-1, og eftir leikinn á Ljósvangi gagnrýndi Glasner forráðamenn liðsins harðlega og sagði þá hafa skilið hann og leikmannahópinn eftir á köldum klaka. Á föstudaginn var greint frá því að fyrirliði Palace, Marc Guehi, yrði seldur til Manchester City.

Glasner gerði enga skiptingu í leiknum í gær og eftir hann kvartaði hann yfir því að fá enga hjálp frá forráðamönnum Palace.

„Þetta er það sem gerist þegar hjarta liðsins er í tvígang rifið úr liðinu á sama ári,“ sagði Glasner en fyrr á tímabilinu var Eberechi Eze seldur til Arsenal, degi fyrir leik. 

„Ég bara skil þetta ekki. Á mínum þrjátíu ára ferli í fótbolta hef ég aldrei upplifað annað eins,“ bætti Austurríkismaðurinn við.

Á blaðamannafundi á föstudaginn greindi Glasner frá því að hann yrði ekki áfram hjá Palace eftir tímabilið. En hann gæti hafa stýrt liðinu í síðasta sinn.

Samkvæmt heimildum Sky Sports fóru ummæli Glasners eftir leikinn gegn Sunderland ekki vel í Parish og hann veltir því nú fyrir sér hvort hann eigi að reka þann austurríska.

Illa hefur gengið hjá Palace að undanförnu eftir góða byrjun á tímabilinu. Ernirnir hafa ekki unnið í tíu leikjum í röð og töpuðu meðal annars fyrir utandeildarliði Macclesfield í 3. umferð ensku bikarkeppninnar um síðustu helgi. Palace varð bikarmeistari á síðasta tímabili en þátttaka liðsins í bikarkeppninni í vetur hlaut fremur snautlegan endi.

Glasner tók við Palace fyrir tæpum tveimur árum. Auk þess að gera liðið að bikarmeisturum í fyrra vann það Samfélagsskjöldinn í upphafi þessa tímabils.

Palace er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 22 leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Chelsea á heimavelli eftir viku.


Tengdar fréttir

Mætti brjálaður í viðtal og hjólaði í stjórnina

Oliver Glasner, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace er allt annað en sáttur við forráðamenn félagsins og lét óánægju sína í ljós í viðtali eftir tap gegn Sunderland í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×