Mason Greenwood hefur komið sem stormsveipur inn í sóknarleik Manchester United á yfirstandandi leiktíð og óhætt að tala um hann sem einn mest spennandi leikmann ensku úrvalsdeildarinnar.
Þessi átján ára gamli framherji skoraði stórkostlegt mark í 4-1 sigri Man Utd á Newcastle í gær. Hann gerði sömuleiðis eina mark Man Utd í 1-1 jafntefli gegn Everton á Old Trafford á dögunum.
Hann er fjórði táningurinn til að skora í tveimur heimaleikjum í röð fyrir Man Utd og fer þar með í áhugaverðan hóp manna.
Ryan Giggs gerði nefnilega slíkt hið sama árið 1993, Wayne Rooney árið 2005 og Federico Macheda árið 2010.
Þeir tveir fyrrnefndu fylgdu þessu rækilega á eftir og eru báðir í guðatölu á Old Trafford eftir ótrúlegan feril með Man Utd þar sem þeir unnu allt sem hægt var að vinna með félaginu.
Macheda hins vegar náði engan veginn að fylgja eftir draumabyrjun sinni hjá enska stórveldinu og náði aðeins að leika 19 leiki fyrir Man Utd í ensku úrvalsdeildinni. Hann er þó enn að í boltanum enda aðeins 28 ára gamall og er á mála hjá gríska liðinu Panathinaikos.
Mason Greenwood is just the 4th Man Utd teenager to score in consecutive home #PL matches
— Premier League (@premierleague) December 27, 2019
He joins Ryan Giggs (1993), Wayne Rooney (2005) and Federico Macheda (2010)#MUNNEW pic.twitter.com/51bvqNCCee