Dýraverndunarsjónarmið
Umhverfissjónarmið
Heilsufarsástæður
Trúarástæður
Aðrar persónulegar ástæður
Hlutfall mannfjölda sem telst grænmetisætur og grænkerar er enn sem komið er lágt í flestum löndum. Þó er umtalsverður hluti Indverja grænmetisætur eða tæplega þriðjungur. Samkvæmt tölum Gallup í Bandaríkjunum segjast tæplega einn af hverjum tíu vera grænmetisætur; 5-6% telja sig grænmetisætur og til viðbótar eru um 2-3% sem telja sig grænkera (vegan), en þetta hlutfall hefur lítið breyst frá 2012. Framleiðsla og kaup fólks á grænkeramatvöru hafa þó aukist mikið í nágrannalöndunum.
Sem dæmi má nefna að Max hamborgarakeðjan í Svíþjóð hefur tífaldað sölu á grænmetisborgurum á 10 árum og bandaríska fyrirtækið „Beyond Meat“ hefur notið gríðarlegrar velgengni allt frá því að það var stofnað árið 2009. Fyrirtækið framleiðir borgara, pylsur og fleira með hráefni úr jurtaríkinu. Þá bárust jákvæðar fréttir af gengi bresku bakarískeðjunnar Greggs, ekki síst vegna nýrrar vöru sem hún kynnti í upphafi árs: Vegan-útgáfu af pylsuhorninu svokallaða, einum af vinsælli réttum bakarísins.
Hefur neysla kjötvara breyst á Íslandi?
Neyslukönnun Gallup sýnir að þrátt fyrir að hlutfall hánotenda (þeirra sem borða kjöt vikulega eða oftar) hafi að mestu staðið í stað hefur lágnotendum (þeim sem borða kjöt aldrei eða sjaldnar en einu sinni á ári) fjölgað verulega. Til að mynda var hlutfall þeirra sem aldrei borða svínakjöt 3,8% að meðaltali á árunum 2007-2009 en hækkaði í 6,3% að meðaltali árin 2016-2018. Þrátt fyrir stækkandi hóp þeirra sem aldrei neyta áðurnefndra kjötvara hefur neysla og fram leiðsla á sumum dýraafurðum eins og mjólk og eggjum verið að aukast. Framleiðsla á mjólk hefur aukist um 26% og framleiðsla á eggjum um 65% síðan 2008.
Breytingar á neyslu Íslendinga á kjötvörum hafa verið mjög ólíkar eftir lýðfræðihópum. Neysla ungra kvenna (18-24 ára) hefur tekið hvað mestum stakkaskiptum á undanförnum árum. Hlutfall ungra kvenna sem aldrei borða kjöt hefur margfaldast frá árinu 2007 og mestu breytingarnar hafa orðið á síðustu tveimur árum. Að meðaltali sögðust rúm 5% kvenna aldrei borða svínakjöt á árunum 2007-2009 en þetta hlutfall nær þrefaldaðist á árunum 20162018. Mun stærri breytingar urðu þó á neyslu ungra kvenna á nautakjöti og lambakjöti þar sem hlutfall þeirra sem aldrei borða nautakjöt og lambakjöt 4- til 5-faldaðist ef borin eru saman meðaltöl áranna 2007-2009 og 2016-2018. Enn fleiri sögðust vera hætt að borða kjúkling þegar borin eru saman sömu tímabil.

Ljóst er að neysluvenjur fólks hafa tekið miklum stakkaskiptum á liðnum árum, bæði hér á landi og erlendis. Grænmetisfæði virðist höfða sérlega vel til ungra kvenna. Miðað við hratt hækkandi hlutfall þeirra sem neyta ekki kjötvara hér á landi og vaxandi áhuga á umhverfismálum finnast fáar vísbendingar um annað en áframhaldandi vöxt grænmetisfæðis og verður til framtíðar áhugavert að sjá hvort mögulegur vöxtur verði fyrst og fremst innan núverandi markhóps eða hvort neysluhópurinn muni breikka, þannig að grænmetisfæði verði algengara meðal karla og þeirra sem tilheyra eldri kynslóðum. Spurningin er hvort grænkerabylting sé í vændum?
Tómas Bjarnason er sviðsstjóri mannauðsrannsókna og ráðgjafar hjá Gallup. Friðrik Björnsson er viðskiptastjóri hjá markaðsrannsóknum Gallup.